Það brutust út fagnaðarlæti þegar blásið var til leiksloka í leik Vestra og Magna, en liðin mættust á laugardaginn á heimavelli Magna á Grenivík. Bjartsýnustu stuðningsmenn Vestra bjuggust ekki við þeim stjörnuleik sem liðið sýndi gegn feiköflugu liðið Magna sem ætlaði að tryggja sér sæti í 1. deildinni á næsta ári með sigri á heimavelli. Leikurinn var engu síður mikilvægur fyrir Vestramenn sem voru að berjast við falldrauginn sem hefur herjað á liðið síðustu vikur. Lið Vestra var að mestu skipað heimamönnum, en sjö byrjunarliðsmenn eru uppaldir hjá Vestra.
Ekki voru nema sex mínútur liðnar af leiknum þegar Michael Saul Halpin kom Vestra yfir og staðan í leikhléi var 1-0 fyrir Vestra. Á 53. mínútu var brotið á Pétri Bjarnasyni í vítateig Magna og Vestri fékk víti sem Pétur skoraði sjálfur úr. Boltinn söng í netinu eftir örugga spyrnu Péturs og barst aftur út í teig og markaskorarinn fagnaði með því að sparka í boltann. Dómari leiksins var af smásmugulegu gerðinni og fann sig knúinn til að þakka Pétri fyrir með því að gefa honum gult spjald. Það reyndist vera annað gula spjaldið hans í leiknum og því fauk hann út af á sömu mínútu og hann skoraði eitt af mikilvægari mörkum í sögu Vestra.
Þrátt fyrir að vera manni færri létu Vestramenn árar ekki í bát og á 64. mínútu var Michael Saul Halpin aftur á ferð með sitt annað mark og þriðja mark Vestra og staðan orðin 0-3. Victor Da Costa klóraði í bakkann fyrir heimamenn á 72. mínútu, en fleiri urðu mörkin ekki og Vestri landaði glæsilegum sigri og hafði falldrauginn undir þegar ein umferð er eftir.
Magnamenn voru ekki síður kátir að leikslokum, því úrslit annarra leikja höguðu því þannig að þrátt fyrir tap gegn Vestra fara Grenvíkingarnir upp um deild ásamt meisturunum í Njarðvík og spila í 1. deild á næsta ári.
smari@bb.is