Vertu snjall undir stýri

Í gær ýtti Slysavarnafélagið Landsbjörg ásamt nokkrum samstarfsfyrirtækjum úr vör verkefni sem kallað er “Vertu snjall undir stýri”.

Gríðarlega hröð þróun hefur verið í notkun snjalltækja undanfarin ár og sýna slysatölur, bæði frá Evrópu og Ameríku, að um 25% allra slysa í umferðinni megi rekja beint til notkunar snjalltækja undir stýri. Ágúst Mogensen hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa segir að heimfæra megi þessar tölur á Ísland. Landsbjörg mun nú taka höndum saman með fyrirtækjum í landinu og þá sérstaklega þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem eru með mikið af bílum í umferðinni.

Samstarfið gengur út á það að atvinnubílstjórar á vegum fyrirtækjanna fái fræðslu um málefnið og hætturnar sem fylgja notkun snjalltækja undir stýri. Fyrirtækin merkja svo bílana sína með slagorði verkefnisins og miðla því þannig boðskapnum til annara ökumanna um leið og atvinnubílstjórarnir sýna gott fordæmi og “vera snjallir undir stýri”.

Markmið verkefnisins er því að vekja bílstjóra til umhugsunar um þá miklu ábyrgð sem því fylgir að vera út í umferðinni, jafnvel á stórum ökutækjum, og nota snjalltæki undir stýri með mögulegum lífshættulegum afleiðingum.

Í fréttatilkynningu frá Landsbjörgu kemur fram að í raun þarf að eiga sér stað hugarfarsbreyting hjá landsmönnum, því það krefst fullrar athygli að stýra ökutæki í umferðinni. Það að lesa og svara skilaboðum, horfa á myndefni, skoða samfélagsmiðla eða senda myndskilaboð undir stýri er einfaldlega of hættulegt til þess að það eigi að teljist í lagi. Íslenskar og erlendar rannsóknir sýna fram á að viðbragðstími ökumanna, verði þeir fyrir truflun, lengist töluvert við notkun snjalltæki undir stýri.

Til þess að gefa fólki hugmynd um hætturnar, þá fékk Landsbjörg þrjá aðila til að gera tilraunir í raunverulegu umhverfi í akstursbraut hjá Ökuskóla 3. Aðilarnir eru Páll Óskar Hjálmtýsson, Sólrún Diego og Sigvaldi Kaldalóns.

Þau fengu öll mismunandi verkefni sem öll snúa að notkun á snjalltæki á þann hátt sem flestir Íslendingar kannast við, þetta gerðu þau á meðan þau voru í akstri. Óvæntir hlutir urðu á vegi þeirra með tilheyrandi afleiðingum og verða myndbönd frá tilraununum birt á næstu dögum.

bryndis@bb.is

DEILA