Sækist eftir öðru sæti á lista Framsóknar

Halla Signý Kristjánsdóttir

Halla Signý Kristjánsdóttir, skrifstofu- og fjármálastjóri Bolungarvíkurkaupstaðar, ætlar að gefa kost á sér í annað sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi þingkosningum. Elsa Lára Arnardóttir hefur vermt sætið í tvennum kosningum en ætlar að draga sig í hlé.

„Það brennur ýmislegt á mér nú sem endranær og hef skoðanir á ýmsum málum og hef fundið mínar leiðir til að koma þeim á framfæri. Margar leiðir eru færar og tækifærin nokkur.

Því hef ég ákveðið að gefa kost á mér í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir næstu alþingiskosningar,“ skrifar Halla Signý á Facebooksíðu sinni.

Hún segir verkefni næsta kjörtímabils vera að koma á festu í íslenskum stjórnmálum og vinna af heilindum til að auka traust á þeim sem vinna að stefnumótun í íslenskum stjórnmálum.

Gunnar Bragi Sveinsson sækist eftir oddvitasæti Framsóknar í kjördæminu, en hann hefur leitt listann síðan í kosningunum 2009. Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi þingmaður VG og Framsóknarflokks, hefur ákveðið að gefa kost á sér í fyrsta sætið.

Á auka­kjör­dæmaþingi Fram­sókna­flokks­ins í Norðvest­ur­kjör­dæmi, sem fór fram um helgina, var ákveðið fara skuli fram tvö­falt kjör­dæm­isþing fyr­ir val á lista flokks­ins í kjör­dæm­inu fyr­ir kom­andi alþing­is­kosn­ing­ar. Kjör­dæm­isþingið fer fram á Bif­röst 8. októ­ber og sama dag verður einnig haldið auka­kjör­dæmaþing þar sem list­inn verður samþykkt­ur.

smari@bb.is

DEILA