Vonast er eftir góðri mætingu á íbúafundinn sem halda á að sunnudaginn í Íþróttahúsinu á Torfnesi, þingmenn kjördæmisins sem og ráðherrar sem telja sig málið varða og eiga heimangengt hafa boðað komu sína.
Pétur G. Markan formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, Eiríkur Örn Norðdahl, Guðrún Anna Finnbogadóttir munu hafa framsögu á fundinum, sem og fulltrúi KPMG sem mun kynna skýrslu um efnahags- og samfélagsleg áhrif sjókvíaeldis í Ísafjarðardjúpi. Síðan verða panelumræður og spurningar.
Aðstandendur fundarins hafa gefið út eftirfarandi tillögu að ályktun sem lögð verður fyrir fundargesti til umræðu.
„Borgarafundur á Vestfjörðum 24. september 2017 vill að mat á samfélagslegum áhrifum verði í framtíðinni lagt til grundvallar stórframkvæmdum og lagasetningu þegar það á við.
Jafnframt setur fundurinn fram eftirfarandi þrjár kröfur:
– Ráðist verði strax í vegagerð í Gufudalssveit samkvæmt leið Þ-H (um Teigsskóg), vegna brýnna hagsmuna sveitarfélaganna, atvinnulífsins og íbúa
– Raforkumál á Vestfjörðum verði færð í nútímabúning með hringtengingu Vestfjarða um Ísafjarðardjúp, þannig að atvinnutækifærum fjölgi á Vestfjörðum.
– Laxeldi verði áfram heimilað í Ísafjarðardjúpi og í því ljósi setji stjórnvöld fram, fyrir árslok, ákvæði um nauðsynlegar mótvægisaðgerðir til að verja laxveiðiár í Ísafjarðardjúpi gegn hugsanlegri hættu á erfðablöndun.“
bryndis@bb.is