Mannlegar tilhneigingar til nýtingar og verndunar – Borgarafundur á Vestfjörðum 24. september.

Gísli Halldór Halldórsson.

Blásið hefur verið til borgarafundar á Vestfjörðum sunnudaginn 24. september næstkomandi. Umræðan verður um sjálfbæra þróun með hliðsjón af laxeldi við Ísafjarðardjúp, vegagerð um Teigskóg og virkjun Hvalár á Ströndum. Meðal annarra munu mæta þarna ráðherrar úr ríkisstjórn. Fjórðungssamband Vestfirðinga sér um skipulag fundarins, enda er þetta borgarafundur allra sveitarfélaga á Vestfjörðum og alveg sérstaklega er þetta borgarafundur íbúanna. Vestfirðingar munu án efa fjölmenna á fundinn og vonast ég til að þeim verði boðið að senda inn spurningar í aðdraganda fundarins, sem leggja má fyrir ráðamenn og aðra sem sitja fyrir svörum.

Réttur mannsins

Réttur manna til að nýta náttúruna andspænis rétti þeirra sem vilja vernda hana er eitthvað sem hlýtur að þurfa að ræða betur í íslensku samfélagi. Slík umræða getur vonandi orðið grunnur að raunhæfri stefnu um sjálfbæra þróun samfélagsins til næstu framtíðar.

Öll getum við verið í hvorum hópnum sem er – í hópi sem vill vernda í einu máli en svo verið í hópi þeirra sem vilja nýta í öðru máli. Hér má taka dæmi af íbúum við Ísafjarðardjúp – fjölmargir þeirra sem vilja laxeldi í Djúpinu vilja ekki sjá laxeldi í Jökulfjörðum. Sumir vilja laxeldi í Djúpinu en eru á móti Hvalárvirkjun. Þetta getur verið með ýmsum hætti og okkur vantar lausnir sem taka tillit til fleiri sjónarmiða en náttúruverndar eða peningahagsmuna. Slíkar lausnir eru þekktar og nýttar erlendis.

Vissulega brenna ofangreind mál þungt á flestum Vestfirðingum enda virðast hagsmunir þeirra oft metnir lítilvægir í samanburði við hagsmuni þeirra sem vilja halda því óbreyttu sem fyrir er. Þrátt fyrir að búast megi við erfiðum spurningum á borgarafundinum þá er það von mín að umræðan geti orðið á skynsamlegum og skemmtilegum nótum og fært okkur nær lausn á þeim álitamálum sem kristallast í deilunum um Ísafjarðardjúp, Teigskóg og Hvalá.

Mannlegar tilhneigingar til að vernda náttúruna

Umhverfisvernd og náttúruvernd hefur sótt í sig veðrið á síðustu áratugum. Annarsvegar er það manninum nauðsyn að ganga um umhverfi sitt á þann hátt að hann spilli ekki eigin möguleikum til að komast lífs af. Þetta sjónarmið er þekkt frá örófi alda en hefur líklega aldrei verið mikilvægara en í dag, þegar óheyrileg kolefnislosun stefnir í að valda hamförum í loftslagsmálum. Á hinn bóginn er svo um að ræða sjónarmið manna um að vernda náttúruna eða halda henni óbreyttri, ýmist til að njóta fegurðar hennar eða varðveita fjölbreytni hennar.

Réttur mannsins til að vernda náttúruna getur þó ekki talist göfugri en réttur mannsins til að nýta hana. Bæði sjónarmið eru mannleg og eiga fullan rétt á sér – en í mörgum málum þarf annað sjónarmiðið að víkja eða láta undan hinu.

Hvernig skal dæma með trúverðugum hætti?

Til að vega og meta það hvort sjónarmiðið á að víkja þurfum við aðferðir á borð við rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Ásamt fjölmörgu fólki um allt land fékk ég góða kynningu á vinnuaðferðum við rammaáætlun, sem Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur flutti með ákaflega skýrum hætti. Fjöldi sjónarmiða, á borð við vernd náttúru og fornminja, voru þar vegin og metin mjög ítarlega þannig að sómi sýndist af. Þetta sýndist trúverðugt.

Þegar birkið í Teigskógi og vestfirska náttúran þar um slóðir dæmast svo sérstök – fyrir það að vera vestfirskt náttúra – að hagsmunir Vestfirðinga af nútímalegum vegasamgöngum skipta ekki máli, þá hljómar það eins og falskur tónn. Út um víða Vestfirði má finna sambærilega birkiskóga og náttúru með ýmsum tilbrigðum – Ísafjarðardjúp og Arnarfjörður skarta t.d. fallegum slíkum skógum og Barðaströndin öll er ægifögur. Það er heldur ekki eins og Teigskógi og nágrenni verði eytt – það verður aðeins lagður vegur um svæðið. Þetta mat á merkilegheitum Teigskógar sýnist ekki trúverðugt.

Þegar talað er um „sérstaka erfðahópa“ og „stofna“ í ánum í Ísafjarðardjúpi, Laugardalsá annarsvegar og Langadalsá/Hvanná hinsvegar, þá setur menn auðvitað hljóða í djúpri lotningu. Þegar litið er til þess að árnar hafa verið ræktaðar upp á liðinni öld frá því að vera laxalausar þá renna hinsvegar á menn tvær grímur. Þessir „sérstöku erfðahópar“ eru varla annað en „fjölskyldur“ laxa – ein fjölskylda í hverri á. Það er einmitt eitt af því sem skilgreinir laxinn, að hann sækir í sömu ána og myndar því sérstaka fjölskyldu eða ætt. Það er sjálfsagt að vernda með einhverjum hætti rétt þeirra og starf, sem hafa ræktað upp árnar, en að kalla það náttúruvernd – sama hvaða vísindamaður segir það – er hreinlega ekki trúverðugt.

Mat á samfélagslegum áhrifum

Það sem virðist skorta mjög í umfjöllun um ýmis stórverkefni á Íslandi er mat á samfélagslegum áhrifum – og þá er ekki verið að tala um efnahagsleg áhrif. Það sem um er að ræða eru þættir eins og: Hvernig munu verkefni hafa áhrif á daglegt líf samfélags, hvernig fólkið lifir, vinnur, leikur sér og á í samskiptum; hvaða áhrif hefur það á sameiginleg gildi, siði og tungutak; áhrif á samheldni samfélags, stöðugleika þess, karakter, þjónustu og aðstöðu; áhrif á möguleika fólks til að koma að ákvörðunum sem varða líf þess og störf, lýðræðisferla og tengd úrræði; áhrif á gæði umhverfis samfélagsins s.s. andrúmsloft og vatnsgæði, gæði matar, áhættuþætti, hávaða, hreinlæti og líkamlegt öryggi og aðgengi íbúanna og stjórn á eigin úrræðum og auðlindum; áhrif á heilsu og velferð, hvort heldur er líkamlega, geðrænt, félagslega eða andlega velferð; áhrif á persónuréttindi og eignarrétt, sér í lagi efnahagsleg áhrif og áhrif á borgaraleg réttindi; áhrif á langanir og ótta, svo sem um öryggi og framtíð samfélagsins og barna þeirra.

Við hefðbundið mat á umhverfisáhrifum kemur líklega út sú niðurstaða að gott og gilt sé að hefja laxeldi í Jökulfjörðum, en þegar samfélagsleg áhrif eru metin í víðu samhengi kann að fást önnur niðurstaða. Í hefðbundnu umhverfismati hefur álit íbúa á gildi Jökulfjarða, fegurð þeirra og friðsæld lítið vægi – á sama hátt og mat margra á fallegum fossum vegur lítið í virkjun Hvalár. Hefur svo sem einhver kannað hvaða áhrif stóraukinn ferðamannastraumur um landið hefur á hin ýmsu samfélög og lífshætti þeirra? Hefur stjórnvöldum nokkurn tíma þótt ástæða til að taka raunverulega á þeim neikvæðu samfélagslegu áhrifum sem núverandi fyrirkomulag kvótakerfisins hefur í för með sér?

Ef ekki verður í framtíðinni lögð meiri áhersla á mat á samfélagslegum áhrifum framkvæmda og fyrirætlana er hætt við að deilur um þær haldi áfram að vera erfiðar viðureignar og endanleg áhrif jafnvel slæm og afdrifarík. Það er því mikilvægt að finna þessum málum ábyrgari farveg.

Hitamál

Því miður leiðist umræða um ofangreind álitamál fljótt út í rökþrot og vitleysu. Kastað er á loft smjörklípum og ýmsum ósannindum – enda er nóg af tröllasögum og kjaftæði á internetinu til að skemmta skrattanum. Vera má að einhver á Vestfjörðum eða annarsstaðar láti plata sig þegar spennandi tækifæri bjóðast, en Vestfirðingar eru að jafnaði álíka skynsamir og annað fólk – ekkert vitlausari og ekkert klárari.

Glöggt er gests augað og sjálfsagt að hlusta með gagnrýnum hætti á ábendingar þeirra sem að utan koma. Þeir sem búa á vettvangi atburða eru hinsvegar alltaf líklegir til að hafa fleiri sjónarmið heldur en þeir sem búa utan vettvangs – sjónarmið íbúa á vettvangi ættu jafnframt oftast að hafa mest vægi í þeim tilfellum sem þeir verða fyrir mestum áhrifum. Það er m.a. af þessum sökum sem skipulag strandsvæða ætti að vera á forræði heimamanna, auðvitað með sama eftirliti opinberra aðila og almennt gildir um skipulagsmál. Í því lagafrumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi um skipulag haf- og strandsvæða er þó ekki gætt að þessum sjónarmiðum.

Vonandi verður umræðan á vestfirska borgarafundinum uppbyggileg og til gagns. Vonandi verða svo sjónarmið heimamanna látin vega þyngra í framtíðinni en verið hefur í fortíðinni.

Gísli Halldór Halldórsson

Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar

DEILA