Lífsnauðsynlegur sigur

Mynd úr safni.

Það var markaleikur á Torfnesvelli á Ísafirði á laugardag þegar Vestri tók á móti Aftureldingu í 20 . umferð 2. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Dagskipun Vestramanna var einföld og stuttorð: sigur! Enda útlitið ekki bjart þegar einungis þrjár umferðir voru eftir og liðið í harðri fallbaráttu. Vestri hóf leikinn af krafti og Michael Saul Halpin kom heimamönnum yfir á 10. mínútu. Viktor Júlíusson bætti við öðru marki fimm mínútum síðar en Andri Freyr Jónasson minnkaði muninn fyrir Aftureldingu á 17. mínútu. Vestramenn létu það ekki á sig fá og Gilles Mbang Ondo kom Vestra í 3-1 með glæsilegu marki á 36. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. Mehdi Hadraoui skoraði fjórða mark Vestra á 51. mínútu og sigurinn var í höfn og vítaspyrna Aftureldingar sem Magnús Már Einarsson skoraði breytti engu um það.

Þegar tvær umferðir eru eftir í deildinni er Vestri í 8. sæti með 24 stig. Lið Sindra er fallið og KV er í hinu fallsætinu með 21 stig og Vestramenn því hvergi nærri hólpnir. Næsti leikur er útileikur við frábært lið Magna sem er í öðru sæti deildarinnar. Vestri þarf að eiga stjörnuleik á laugardaginn til að koma með stig heim frá Grenivík.

Síðasti leikur deildarinnar verður laugardaginn 23. september en þá kemur Höttur á Torfnesið. Líkt og Vestri er Höttur fallbaráttu og er nú með 22 stig í 10. sæti deildarinnar.

DEILA