Fulltrúar Landssambands fiskeldisstöðva og Landssambands veiðifélaga krefjast þess að Ísafjarðarbær biðji þá opinberlega afsökunar vegna ummæla sem Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri hefur látið falla um störf starfshóps um stefnumótun í fiskeldi. Ummælin féllu á aukafundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 24. ágúst. Verði bærinn ekki við kröfunni áskilja þeir sér rétt til að fá ummælin ómerkt með öðrum úrræðum.
Þetta kemur fram í bréfi til forseta bæjarstjórnar og formanns bæjarráðs undirritað af Kjartani Ólafssyni stjórnarformanni Arnarlax, Guðmundi Gíslasyni stjórnarformanni Fiskeldis Austfjarða, og Óðni Sigþórssyni frá Landssambandi veiðifélaga. Þremenningarnir sátu í starfshópnum.
Þeir segja að í ummælum Gísla Halldórs felist gróf og ósönn ásökun um að fulltrúi veiðiréttarhafa og fulltrúar laxeldisfyrirtækjanna hafi sýnt af sér óheilindi og óheiðarleika í störfum sínum. Í bréfinu er vísað sérstaklega til orða Gísla Halldórs um að fulltrúarnir hafi „plottað“ og haft „hrossakaup“ sem leiddu til þeirrar niðurstöðu að ekki yrði leyft sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi.
Í bréfinu segir að Gísla Halldóri hafi verið boðið að draga ummæli sín til baka og leggja fram afsökunarbeiðni en hann hafi hafnað því.
Hér má nálgast upptöku bb.is af fundinum sem vísað er til.
smari@bb.is