Kallað eftir verkefnum á dagskrá afmælisársins

Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands verður fagnað á næsta ári með fjölbreyttri dagskrá um land allt. Opnuð hefur verið vefsíða afmælisársins á slóðinni www.fullveldi1918.is.  Vefsíðan verður upplýsingasíða þar sem m.a. verður hægt að fylgjast með dagskrá afmælisársins og skrá verkefni á dagskrá afmælisársins.  Á síðunni verður einnig að finna fróðleik um árið 1918 og fullveldishugtakið sem og námsefni fyrir skóla.

 

Dagskrá afmælisársins mótuð af landsmönnum

Kallað er eftir frumkvæði og virkri þátttöku landsmanna við mótun dagskrár afmælisársins og lögð er áhersla á að ná til sem flestra landsmanna.  Opnað hefur verið fyrir tillögur að verkefnum á dagskrá afmælisársins og skal þeim skilað rafrænt gegnum vefsíðuna www.fullveldi1918.is fyrir kl 16, 22. október nk.

 

Verkefnaáherslur

Lögð er áhersla á fjölbreytt og vönduð verkefni með nýstárlega nálgun. Litið verður til verkefna sem:

  • minnast aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands og/eða hafa skírskotun til þess þáttar í sögu þjóðarinnar.
  • fjalla um og/eða byggja á fullveldishugtakinu, hvort heldur er í fortíð, nútíð eða framtíð.
  • hvetja til samstarfs.
  • Samstarf getur verið þvert á greinar, milli landsvæða, aldurshópa, þjóðfélagshópa, landa, ólíkra stofnana og félagasamtaka.
  • höfða til barna og ungs fólks og eru til þess fallin að auka þekkingu og innsýn þeirra í söguna, samfélagið og fullveldishugtakið.
  • höfða til fjölbreytts hóps fólks og hvetja til almennrar þátttöku.
  • draga fram áhugaverða samlíkingu milli fortíðar og nútíðar í sögu lands og þjóðar, s.s. í menntun, heilbrigðismálum, náttúru, umhverfismálum, vísindum, stjórnmálum, atvinnuþróun, samgöngum og í daglegu lífi fólks.
  • hafa nýstárlega nálgun á þjóðararfinn og/eða á viðfangsefnið.
  • eru til þess fallin að vekja athygli á sérstöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.

Ofangreindar verkefnaáherslur útiloka ekki verkefni af öðrum toga hafi þau skírskotun til tilefnisins.

bryndis@bb.is

DEILA