Frumvarp um Teigsskóg tilbúið

Teigsskógur í Þorskafirði.

Allir þingmenn Norðvesturkjördæmis að Lilju Rafneyju Magnúsdóttur undanskilinni standa að baki frumvarpi sem veitir Vegagerðinni framkvæmdaleyfi á veglínunni Þ-H á Vestfjarðarvegi 60, vegur sem í daglegu tali nefnist vegurinn um Teigsskóg. Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, er fyrsti flutningsmaður málsins. Hann skrifar á Facebook í dag að hafi verið vonbrigði að ekki hafi náðst samstaða um að setja málið á dagskrá, en þingstörfum lauk í nótt. Hann segir að fái hann til þess umboð í kosningunum í október verði það hans fyrsta verk að leggja málið fram að nýju.

Frumvarpið er einungis ein lagagrein og er hún svohljóðandi: Vegagerðin hefur leyfi til framkvæmda á leið Þ-H á Vestfjarðavegi (60) milli Bjarkalundar og Skálaness, þrátt fyrir ákvæði skipulagslaga, nr. 123/2010. Viðkomandi sveitarfélag skal eftir sem áður hafa eftirlit með framkvæmdunum samkvæmt ákvæðum skipulagslaga.

Í frumvarpinu eru tiltekin tvö skilyrði fyrir heimild Vegagerðarinnar en þau eru að fyrir liggi rannsóknir Hafrannsóknastofnunar á botnseti í Þorskafirði og enn fremur að fyrir liggi breyting á aðalskipulagi Reykhólahrepps vegna nýrra efnistökustaða.

Um tilgang og nauðsyn lagasetningarinnar segja flutningsmennirnir í greinargerð með frumvarpinu:

„Ekki þarf að fjölyrða um brýna nauðsyn þess að ráðast í vegabætur á svæðinu sem um ræðir, enda ber gamli malarvegurinn um Gufudalssveit ekki lengur þá umferð sem um hann fer og skapar alvarlega hættu. Óásættanleg töf hefur nú þegar orðið á málinu eins og rakið var í síðasta kafla, en málið hefur nú þegar velkst í kerfinu í tæp 15 ár. Flutningsmenn telja ekki ásættanlegt að íbúar svæðisins þurfi lengur að líða fyrir þær miklu ógöngur sem leyfi til framkvæmda hefur þurft að feta. Það hefur varla verið vilji löggjafans að hægt sé að halda jafn brýnni samgöngubót í gíslingu flækjustigs stjórnsýslunnar í jafn langan tíma og raun ber vitni. Tímabært er að umræða um rétt íbúa gegn svifaseinni stjórnsýslu eigi sér stað.

Flutningsmenn þessa frumvarps telja að nauðsynlegt sé því að grípa í taumana í þeim tilgangi að koma í veg fyrir frekari tafir að óþörfu og flýta því eins og kostur er að framkvæmdir geti hafist. Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa á undanförnu sett fram sambærileg sjónarmið. Er tilgangur þessa frumvarps að veita framkvæmdaleyfi til framkvæmdarinnar með lögum til að eyða óvissu um það atriði. Eftir sem áður þurfa önnur skilyrði að uppfyllast, svo sem getur í frumvarpstextanum.“

smari@bb.is

DEILA