Ferðaþjónustan gagnrýnir fjárlögin

Starf­semi tengd farþega­flutn­ing­um og ferðaskrif­stof­um var ekki virðis­auka­skatt­skyld fyrr en í árs­byrj­un 2016 og skekkir það samanburð milli ára.

Þegar rýnt er í fjárlagafrumvarpið kemur skýrt fram að stjórnvöld hafa mikla trú á ferðaþjónustunni – þegar kemur að tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Þegar, hins vegar, horft er til uppbyggingar innviða gagnvart ferðaþjónustunni í fjárlögunum er ekki hægt að draga þær ályktanir að stjórnvöld hafi raunverulega trú á greininni. Þetta kemur fram í ályktun stjórnar Samtaka ferðaþjónustunnar. Þar segir að á undanförnum árum hafi ferðaþjónustan staðið að baki hagsælt á Íslandi og bætt lífskjör. Á það er bent að blikur eru á lofti í ferðaþjónustu og mikilvægt að hafa í huga að það er ekki sjálfgefið að erlendir ferðamenn leggi leið sína til Íslands og skapi verðmæti í því samkeppnisumhverfi sem ferðaþjónusta hér á landi býr við.

Í ályktuninni er bent á auknar álögur á ferðaþjónustuna sem stjórnin telur að verði fimm milljarðar á næsta ári. Munar þar mest um hækkun vörugjalda á bílaleigubíla og einnig um gistináttaskatturinn hækka.

Þá er boðað að ferðaþjónusta fari upp í hæsta virðisaukaskattþrep árið 2019 sem gæti þýtt 18 milljarða aukalega í ríkiskassann.

Í ályktuninni er gagnrýnt að í fjárlögunum er gert ráð fyrir lítilli uppbyggingu innviða og sérstaklega er gagnrýnt að framkvæmdir í vegakerfinu dragast saman um 100 milljónir kr. milli ára. „Brýnt er að stórauka fjármuni til að viðhalda og endurnýja vegakerfið sem er á mörgum stöðum að grotna niður. Gott, greiðfært og hagkvæmt samgöngukerfi kemur öllum til góða. Fyrir ferðaþjónustuna er vegakerfið lífæð greinarinnar og grundvöllur þess að dreifa ferðamönnum um landið,“ segir í ályktuninni.

smari@bb.is

DEILA