Samkvæmt fyrstu niðurstöðum lesfimiprófa sem voru lögð fyrir íslenska grunnskólanemendur í fyrsta skipti á síðasta skólaári hafa margir skólar náð góðum árangri sérstaklega í yngstu árgöngunum. Hins vegar er þörf á umbótum á miðstigi, þ.e. í 5.–7. bekk. Leggja þarf áherslu á fjölbreyttar leiðir í skólum og á heimilum til að auka margs konar lestur nemenda. Þá þarf að finna leiðir til að gera lestur áhugaverðari og auka aðgengi að hvetjandi lesefni. Þetta kemur fram í tilkynningu menntamálaráðuneytisins.
Greint var frá niðurstöðu lesfimiprófanna í gær þegar fyrsta heila skólaári læsisverkefnisins, Þjóðarsáttmála um læsi, lauk.
Þátttaka í lesfimiprófunum var góð en 75% nemenda í 1.-10. bekk tóku þátt í prófunum í maí. Mest þátttaka var í 3. bekk eða 83% en minnst í 10. bekk þar sem 54% nemenda tóku þátt. Alls lögðu 93% skóla prófin fyrir á skólaárinu 2016-2017 og fleiri munu taka þátt nú í september. Þetta kemur jafnframt fram í tilkynningu.
Lesfimiprófin eru mælitæki til að meta lestrarkunnáttu og framvindu nemenda í lesfimi, lesskilningi, orðaforða, stafsetningu og ritun og til að skima fyrir lestrarerfiðleikum, undir yfirheitinu Lesferill.
smari@bb.is