Í kvöld munu í Tjöruhúsinu koma saman vinir og vandamenn Helenu Bjarkar Þrastardóttur heitinnar, bókavarðar við Bókasafnið á Ísafirði, sem féll nýverið frá, allt of ung að aldri. Ætlunin er að minnast Helenu, skála fyrir henni og gleðjast yfir þeim góðu stundum sem hún deildi með okkur, en í dag hefði Helena fagnað 36 ára afmæli sínu. „Afmælisveislan“ verður með glaðlyndu og hressilegu sniði og eru allir boðnir velkomnir, en þar mun tónlist verða flutt, meðal annars af Skúla „Mennska“ Þórðarsyni, bekkjarfélaga og vini Helenu til margra ára, auk þess sem skoska stúlknasveitin Midas Fall hefur ferðast sérstaklega til landsins til þess að spila henni minningarsöng. Þá verður frumsýnt málverk af Helenu í essinu sínu eftir listakonuna Jelenu Micic, sem jafnaldrar Helenu og bekkjarfélagar við Grunnskólann og Menntaskólann á Ísafirði hafa látið útbúa og verður fært Bókasafninu á Ísafirði, vinnustað hennar, að gjöf að helginni lokinni.

Coca Cola á Ísafirði hefur að auki lagt til forláta bjórkúta til styrktar ætluðum minningarsjóð um Helenu sem nú er í bígerð, en þannig mun allur ágóði af bjór sem selst í kvöld (og verður á sérstökum kostakjörum) renna beint í sjóðinn, sem nánar verður kynntur síðar.

Fyrirhugaðir minningartónleikar um Helenu, sem Ásgeir Helgi yngri bróðir hennar hefur haft í býgerð, eru enn á dagskrá og munu fara fram að ári liðnu.

Haukur S. Magnússon, vinur Helenu og einn skipuleggjenda afmælisveislunnar, segir að með henni sé fyrst og síðast hugmyndin að gefa þeim sem báru gæfu til að kynnast Helenu vettvang til gleðjast, eiga góða stund saman og heiðra minningu vinkonu sinnar. „Helena var dásamleg manneskja,“ segir Haukur, „sem því miður var tekin frá okkur allt of snemma. Við viljum halda minningu hennar á lofti og tryggja að þessi glaðværa, brosmilda stúlka sem lífgaði upp á líf svo margra í kring um sig muni ávallt eiga sér stað í hjörtum þeirra sem hún snerti.“

Viðburðurinn hefst um kl. 22.30, aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.

Þess má og geta að annað kvöld mun Dr. Gunni koma fram í Tjöruhúsinu, ásamt Stífgrím kombóinu og hljómsveitinni Ást, en aðgangur er einnig ókeypis þar og allir velkomnir.

smari@bb.is

 

DEILA