Björn Ásgeir Ásgeirsson úr Hamri er genginn til liðs við körfuknattleiksdeild Vestra og mun hann leika með meistaraflokki félagsins á komandi keppnistímabili. Hann verður einnig meðal lykilmanna í unglingaflokki Vestra en stjórn hefur nú ákveðið að tefla fram unglingaflokki í vetur líkt og í fyrra.
Björn Ásgeir er fæddur árið 2000 og er því aðeins 17 ára gamall á þessu ári. Þrátt fyrir ungan aldur lék hann 16 leiki með meistaraflokki Hamars á síðasta tímabili og væntir Vestri mikils af honum í vetur. Hann komst í lokahóp U16 ára landsliðsins í fyrra og er því meðal fremstu leikmanna landsins í sínum árgangi.
Björn Ásgeir mun leika undir stjórn Yngva Páls Gunnlaugssonar, bæði í meistaraflokki og unglingaflokki, en Yngva til aðstoðar við þjálfun í vetur verður Nebojsa Knezevic, leikmaður meistaraflokks.