Bæjarráð Vesturbyggðar lýsir þungum áhyggjum vegna verðlækkunar á afurðarverði til sauðfjárbænda. Í bókun bæjarráðs segir að sauðfjárbúskapur sé mikilvæg atvinnugrein í sveitarfélaginu svo og á Vestfjörðum öllum og að vestfirsk samfélög þoli ekki hinn umfangsmikla niðurskurð afurðarverðs án þess að þau skaðist efnahags- og félagslega.
Bæjarráð Vesturbyggð tekur heils hugar undir yfirlýsingu landssamtaka sauðfjárbænda frá 11. ágúst og treystir því að stjórnvöld muni grípa til allra mögulegra aðgerða til aðstoðar sauðfjárbændum og sveitarfélögum til að komast yfir þá erfiðleika sem nú blasa við.
Í yfirlýsingu Landssamtaka sauðfjárbænda segir að bændur horfa fram á þriðjungs lækkun á afurðaverði í haust, í kjölfar nærri 10% lækkunar á síðasta ári. Þessar lækkanir munu koma harkalega niður á sveitum landsins og landssamtökin benda á að þær bitna sérstaklega á yngri bændum. „Bændur hafa þegar lagt út í nánast allan kostnað við lambakjötsframleiðslu haustsins og lækkun á afurðaverði er því hrein og klár launalækkun. Þessi launalækkun er 1.800 milljónir króna fyrir stéttina í heild ef hún gengur eftir sem horfir og bætist þá við 600 milljónir sem bændur tóku á sig í fyrra,“ segir í yfirlýsingunni.
smari@bb.is