Ísland er einstök náttúruperla. Það er skoðun flestra er landið byggja og flestra þeirra sífjölgandi gesta er það heimsækja. Þrátt fyrir mikla náttúrfegurð hafa íbúar frá fyrstu tíð skapað sér eins góða búsetukosti og þeim framast hefur verið unnt. Þannig hafa þeir best tryggt búsetuna sjálfa því þrátt fyrir allt er landið um margt harðbýlt.
Undanfarna áratugi hefur átt sér stað fordæmalaus uppbygging á suðvesturhorni landsins. Uppbyggingunni hefur ráðið sá vilji almennings og kjörinna fulltrúa þeirra að tryggja sem bestar aðstæður til byggðar. Hagsmunir íbúa hafa vegið þyngst. Maðurinn hefur notið vafans.
Að nýta og njóta
Mörg dæmi má nefna um þessa uppbyggingu. Nýir vegir hafa verið lagðir og eldri endurnýjaðir, sumir við og í gegnum náttúruperlur, til að flýta för íbúa og stytta leiðir. Hvar væri mannlíf á fegurstu kjarrivöxnum svæðum suðvesturhornins án vega? Gæti Hvalfjörður verið án vega og hvernig myndu menn njóta Þingvalla án vegasambands? Malbikaðir vegir og göngustígar hafa verið lagðir um Elliðaáardalinn. Hagsmunir íbúa í forgangi.
Verksmiðjur hafa risið til að tryggja atvinnu íbúa, sumar fjarri byggð í upphafi en síðar hafa aðstæður breyst þannig að dæmi eru um að íbúabyggð hafi verið skipulögð að og í kring. Ekki verður þó annað séð að íbúuar í Hafnarfirði séu sáttir við nábýlið í Straumsvík, nú sem áður. Virkjanir hafa risið til að tryggja rafmagn í athafnasemi íbúa svæðisins, sumar þeirra í öðrum landshlutum, aðrar í túnfætinum. Tónninn var sleginn með virkjun Elliðaáa og síðar var heita vatnið virkjað til rafmagnsframleiðslu. Ráðist var í stórhuga framkvæmdir á Hellisheiði og þannig tryggð orka. Náttúra Hellisheiðar vék og Hvergerðingar súpa seyðið af framkvæmdunum, eða réttara sagt anda því að sér. Þarna réðu hagsmunir íbúa höfuðborgarsvæðisins ferðinni.
Lengra skal ganga
Náttúrperlan Þríhnjúkagígur er við bæjardyr höfðuðborgarbúa, einstök á heimsmælikvarða. Þar eru langt komnar áætlanir um að sprengja sig inn í gíginn til þess að tryggja meiri umferð ferðafólks, tekju- og atvinnuskapandi verk. Ekki hafa (enn) verið stofnuð samtökin Þyrmum Þríhnjúkagíg af þessu tilefni. Á sama svæði hefur skíðasvæði íbúa verið byggt þrátt fyrir að það standi við og á svokölluðu vatnsverndarsvæði byggðarinnar. Hagsmunir íbúa ráða ferðinni.
Reykvíkingar hafa lengi reynt að endurheimta Vatnsmýrina úr klóm flugvallar úr seinni heimsstyrjöld. Ekki til að endurheimta þá náttúruperlu sem Vatnsmýrin í raun er, til að fara að ákvæðum Ramsar-sáttmálans um endurheimt votlendis. Nei, nærtækara er að nýta Vatnsmýrina undir íbúabyggð enda mikil þörf á fjölgun íbúða. Náttúran víkur, hagsmunir íbúa ráða.
Stórfelld uppbygging á suðvesturhorninu hefur verið tryggð með nánu samstarfi sveitarstjórna á svæðinu. Fulltrúar ólíkra stjórnmálaflokka hafa í gegnum tíðina flestir verði sammála um að tryggja heildarhagsmuni íbúa hverju sinni.
Leiðtogar skipta máli
Einn áhrifamesti og farsælasti kjörni fulltrúi undanfarinna áratuga á þessu svæði er efalítið Sveinn Kristinsson á Akranesi. Sem bæjarfulltrúi um áratugaskeið á Akranesi hefur hann ásamt félögum sínum á höfuðborgarsvæðinu lyft Grettistaki íbúum til heilla. Hann hefur stutt dyggilega uppbyggingu atvinnufyrirtækja á Grundartanga og sem stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur og síðar starfsmaður lagði hann sitt lóð á vogarskálar virkjana á Hellisheiði. Sem bæjarfulltrúi á Akranesi studdi hann hugmyndir um lagningu vegar við Grunnafjörð. Allt samviskusamlega gert með það að leiðarljósi að auðvelda byggð á sínu svæði. Íbúar treystu dómgreind hans í þessum málum. Hagsmunir íbúa hafa ráðið för.
Trjágróður í forgangi
Byggð á Vestfjörðum hefur átt undir högg að sækja á undanförnum áratugum. Atvinnulíf hefur gengið í gegnum miklar breytingar og látið stórlega á sjá. Uppbygging innviða þar er langt á eftir öðrum landshlutum. Rafmagn er ótryggt og treyst á orku frá öðrum landshlutum um veikt dreifikerfi. Stóran hluta árs er stólað á framleiðslu rafmagns með olíu. Þrífasa rafmagn er ekki til staðar víða í dreifbýli og hamlar mjög uppbyggingu atvinnukosta. Fjarskipti eru veikburða og netsamband víða fjarri því sem aðrir landshlutar búa við. Þrátt fyrir framfarir í vegasamgöngum er staðan sú að sunnanverðir Vestfirðir eru 60 árum á eftir öðrum landshlutum. Ráðlegur hámarkshraði drjúgs hluta vegakerfisins þar er enn 20-30 km/klst. Skilningur hefur undanfarin ár verið fyrir endurbótum til að tryggja heilsárs vegasamband milli svæðisins og annarra landshluta. Þær framkvæmdir hafa legið niðri í nokkur ár vegna deilna um vegagerð um svonefndanTeigsskóg. Þrátt fyrir augljósa hagsmuni íbúa hafa aðrir hagsmunir vegið þyngra. mestu ráða hagsmunir tveggja landeigenda í nefndum Teigsskógi. Ekki vegna búsetu þeirra þar þá fáu daga er þeir dvelja þar í sumarhúsum sínum árlega heldur vegna kjarrlendis. Ekki vegna þess að það sé ósnortið, enda fyrir löngu búið að ryðja þar í gegn vegslóða til nota fyrir landeigendur og gesti þeirra. Í öðrum landshlutum hafa almennir hagsmunir íbúa ráðið en á sunnanverðum Vestfjörðum ráða hagsmunir tveggja landeiganda sem drepa þar niður fæti nokkra daga á ári. Þarna ráða ekki hagsmunir íbúa.
Uppbygging víkur
Atvinnulíf á Vestfjörðum hefur á síðustu árum rétt úr kútnum, einkum vegna uppbyggingar laxeldis. Laxeldi á Vestfjörðum er byggt á ákvörðun sem tekin var 2004 um að loka stærstum hluta strandlengju Íslands fyrir laxeldi, en beina því í staðinn á þau svæði þar sem litlar sem engar laxveiðiár eru. Íbúum er tekið að fjölga á sumum svæðum Vestfjarða, nokkuð sem fyrir örfáum árum var talið ómögulegt. Þegar laxeldið var að komast á legg kom fram félagsskapur veiðirétthafa sem kvaðst beita öllum tiltækum ráðum til þess að koma í veg fyrir þessa atvinnuuppbyggingu, þrátt fyrir að hverfandi laxveiði sé í ám á Vestfjörðum. Þeir hafa svo sannarlega staðið við þá hótun og eru nú með færustu lagatækna landsins í vinnu.
Á dögunum birti Hafrannsóknarstofnun svo áhættumat þar sem lögð var til stöðvun uppbyggingar laxeldis í Ísafjarðardjúpi vegna laxveiða í þremur ám.
Áætlað hefur verið að byggja upp í Djúpinu um 30 þúsund tonna laxeldi. Áætlað útflutningsverðmæti þess eldis er áætlað um 25 milljarðar á ári. Byggðastofnun telur að um 200 bein og afleidd störf skapist við hver tíu þúsund tonn laxeldis. Samtals gætu því 600 bein og óbein störf orðið til í byggðum við Ísafjarðardjúp vegna laxeldis. Því er um gríðarlega beina fjárhagslega og byggðalega hagsmuni að ræða. Ráði áhættumat Hafrannsóknarstofnunar munu þessir hagsmunir víkja.
Fyrir hverju?
Tekjur af umræddum þremur ám í Ísafjarðardjúpi, Hvannadalsá, Laugardalsá og Langadalsá eru í besta falli 20-25 milljónir á ári. Ekkert starf hefur skapast á Vestfjörðum vegna þessarar starfsemi, svo vitað sé. Hver eru hin náttúrulegu verðmæti í þessum ám sem í hættu geta verið vegna hugsanlegra slysa við laxeldi? Engin þeirra státar af sínum upprunalega náttúrlega stofni heldur hefur um árabil verið stunduð þar skipuleg laxarækt með stofnum annars staðar frá. Ein þessara áa, Laugardalsá, er í grunninn ekki laxveiðiá. Hún varð það ekki fyrr en hún var sprengd upp og í hana byggður mikill laxastigi. Ekki er hér lagt til að slík á skuli flokkuð sem manngert leiktæki, en fráleitt er hún náttúruverðmæti. Veiði í þessum ám er hverfandi. Á síðasta ári voru dregnir úr ám laxar um þrjú hundruð sinnum, sumir oftar en aðrir. Það eru hagsmunir um tylftar veiðirétthafa þessara laxa sem eiga að ganga framar hagsmunum þúsunda íbúa svæðisins. Þarna ráða ekki hagsmunir íbúanna.
Eigi skal virkja
Eva Sigurbjörnsdóttir hefur um árabil barist fyrir byggð í Strandasýslu, allt frá því að hún settist þar að og hóf rekstur í Djúpuvík. Hún hefur á undanförnum árum verið í fararbroddi sveitarstjórnarmanna á svæðinu líkt og áðurnefndur Sveinn syðra og hefur ásamt sveitungum sínum barist fyrir og trúað á möguleika á blómlegri byggð og viljað láta hagsmuni íbúa ráða. Hún hefur viljað tryggja að íbúar njóti í einhverjum mæli nútíma þæginda sem sjálfsögð þykja í öðrum landshlutum. Um margra ára skeið hefur verið unnið að virkjun Hvalár í Ófeigsfirði og hefur sá virkjanakostur ágreiningslaust verið í nýtingarflokki. Hörðustu andstæðingar frekari virkjana hafa aldrei talið nauðsynlegt að hún fari í verndunarflokk enda er þar um að ræða afturkræfar framkvæmdir. Með virkjun Hvalár verða stigin löngu tímabær framfaraskref. Ekki bara í Strandasýslu heldur einnig á Vestfjörðum öllum. Af þeirri ástæðu hafa flestir sveitarstjórnarmenn í gegnum tíðina stutt virkjanir og Eva er þar engin undantekning.
Nýlega, þegar undirbúningur virkjunar Hvalár er á lokastigi, kom fram hópur fólks sem er andsnúinn henni. Hópurinn telur að með virkjuninni hverfi ósnortin víðerni á Vestfjörðum og hagsmunir þeirra eigi að hafa forgang, á kostnað íbúa. Einn forvígismanna þessa hóps er Sveinn Kristinsson á Dröngum, sem þar hefur búsetu hluta úr sumri. Í fjölmiðlum hefur Sveinn á Dröngum lýst þeirri skoðun sinni að með bættum búsetukostum í kjölfar virkjunarinnar sé verið að bera fé á íbúa á Ströndum. Það sé alþekkt leið sem orkufyrirtæki hafi oft nýtt sér! Hvað skyldu stjórn og starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur segja við því?
Sveinar kallast á
Í Sveini Kristinssyni á Dröngum og Sveini Kristinssyni á Akranesi kristallast mismunandi hagsmunamat fólks eftir búsetu. Sveinn á Dröngum, sem aðeins býr aðeins lítinn hluta ársins á Dröngum, telur huglæga hagsmuni sína eiga að ganga framar hagsmunum þeirra er hafa trú á áframhaldandi mannlífi allt árið á Ströndum. Sveinn á Akranesi telur hins vegar að hagmunir íbúa á höfuðborgarsvæðinu eigi að ganga fyrir þar til að tryggja blómstrandi mannlíf. Sveinninn syðra vill nýta sér til hagsbóta og þæginda allt sem náttúran getur gefið. Sá á Dröngum vill að geta drepið niður fæti á Ströndum og þar eigi allt að vera eins og áður.
Ólíkar skoðanir þessara tveggja sveina vekja upp nokkrar spurningar: Á ekki að ríkja jafnræði milli landshluta þegar innviðir þeirra eru byggðir upp? Er eðlilegt að örfáir íbúar suðvesturhornsins geti heft eðlilegar framfarir í byggð á Vestfjörðum? Eiga íbúar á Vestfjörðum að vera safnverðir horfinna lífshátta og samgangna svo örfáir aðrir íbúar landsins geti örstutt drepið þar niður fæti, hallað sér aftur í kvöldsólinni og angurværir rifjað upp liðna tíð?
Best væri að Sveinn á Akranesi myndi taka Svein á Dröngum tali og reyni að fá hann ofan af því að hlusta bara á íbúa á Tvískinnungi og Eiginhagsmunum. Þannig tryggjum við jöfn tækifæri og jafnræði allra landsmanna.
Halldór Jónsson