Stórveldi fest á filmu

Kareokimennirnir Halldór Eraclides og Pétur Magnússon stappa stálinu hvor í annan.

Heimildarmyndin Goðsögnin FC Kareoke verður frumsýnd í Ísafjarðarbíó í kvöld, en myndin fjallar að mestu um Bjarmalandsför samnefnds mýrarboltaliðs til Finnlands. Myndin er eftir Herbert Sveinbjörnsson sem á að baki allnokkrar heimildarmyndir. Þetta er í annað sinn sem Herbert sækir efnivið vestur á firði, en fyrir 6 árum gerði hann myndina Rokknefndina sem fjallar um Aldrei fór ég suður. En hvers vegna ákvað hann að gera mynd um mýrarboltalið? Herbert segir að þegar hann kláraði myndina Ösku þá fór hann að hugsa um að gera mynd um Mýrarboltann á Ísafirði og ætlaði þá að fókusa á mótið sjálft og kannski þrjú lið. „Ég var í sambandi við Hálfdán Bjarka [Hálfdánsson] og hann sagði mér að Kareoke hefði unnið mótið árið áður og væru á leið til Finnlands til að taka þátt í heimsmeistaramótinu. Þegar ég heyrði að í liðinu væru Pétur Magg og fleiri litríkir karakterar þá sá ég um leið að þetta væri myndin og hætti við þessa þriggja liða mynd,“ segir Herbert.

Herbert Sveinbjörnsson kvikmyndagerðarmaður.

Úr varð að Herbert fylgdi liðinu á HM í Finnlandi sumarið 2015. „Ég vissi ekkert um mýrarbolta og hvað þá að þetta væri alþjólegt fyrirbæri með heimsmeistaramóti í Finnlandi, ég hélt að þetta væri eitthvað ísfirskt dæmi.“

Herbert er dulur þegar hann er spurður út í frammistöðu liðsins í Finnlandi. „Fólk verður bara að sjá myndina. En þeir ákváðu að hætta eftir Finnlandsferðina.“

Herbert var langt kominn með myndina þegar þýsk/franska sjónvarpsstöðin Arte fór að sýna henni áhuga. „En þeir vilja meira myndefni svo ég næ að sannfæra liðið um að taka skóna af hillunni og þeir taka þátt Mýrarboltanum á Ísafirði í fyrra og gera sér lítið fyrir og vinna mótið.“

Þegar saga Mýrarboltans á Ísafirði verður skrifuð þá verður nafn FC Karaoke ritað með stóru letri, enda er liðið stórveldi í íþróttagreininni. Í myndinni er farið yfir sögu liðsins sem var stofnað í árdaga Mýrarboltans. „Þeir eiga sér sína erkifjendur í Gemlingunum og það er farið yfir þann ríg sem hefur oft á tíðum verið hatrammur,“ segir Herbert.

Myndin verður frumsýnd í Ísafjarðarbíó í kvöld kl. 20.

DEILA