Stofnanaofbeldi

Kristinn Bergsveinsson

Aðalskipulag Reykhólahrepps, áður svæðisskipulag, hefur verið í fullu gildi frá árinu 1998. Vegagerðin lét gera umhverfismat á fimm leiðum. Niðurstaðan var að sú leið sem valin var væri best fyrir öryggi vegfarenda og ódýrust, hvort tveggja eru atriði sem lög um samgöngur leggja mikla áherslu. Varðandi snjómokstur og hálkuvarnir lofar Vegagerðin að áfram verði þjónusta á leiðinni Djúpidalur-Gufudalur, auk tengivega. Vegagerðin og margir ráðandi aðilar hafa margsinnis lýst því yfir að jarðgangaleið komi ekki til greina, engar rannsóknir hafa verið gerðar í þá átt.

Í desember sl. eftir að umhverfismatsferli var lokið taldi vegamálastjóri að stutt væri í að sótt væri um framkvæmdaleyfi og verkið boðið út. Skipulagsstofnun skila ekki neikvæðri umsögn sinni fyrr en á vordögum. Sú neitun hafði ekkert gildi og lýsti vegamálastjóri yfir að sótt yrði um framkvæmdaleyfi til Reykhólahrepps. En Adam var ekki lengi í paradís. Forstjóri Skipulagsstofnunar kom fram hvað eftir annað í útvarpi og á ruv.is með áróður gegn ákvörðun Vegagerðarinnar og fullyrti að gera þyrfti nýtt aðalskipulag og deiliskipulag án nokkurra raka.

Skipulagsstofnun neitaði að samþykkja aðalskipulag fyrir 10 árum, það var kært og ráðherra staðfesti skipulagið. Síðan hefur stofnunin staðið vörð gegn vegabótum á svæðinu og reynt allt mögulegt til að tefja og koma í veg fyrir að farið sé að lögum. Slík hegðun kallar á nýtt orð og það er stofnanaofbeldi.

Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal

DEILA