Eins og flestir vita verður Evrópumeistaramótið í mýrarbolta haldið í Bolungarvík í ár, en frá upphafi hefur mótið haft heimilisfesti á Ísafirði. Benedikt Sigurðsson er drullusokkur Mýrarboltans og mótið leggst vel í hann. „Mér sýnist að skráningar séu fleiri en í fyrra og það eru komin 20 lið. Vanir mýrarboltamenn segja að oft bætast við lið á síðustu stundu svo liðunum gæti fjölgað,“ segir Benedikt. Leikið verður á tveimur splunkunýjum völlum og Benedikt hefur staðið í ströngu við að vökva vellina í þeirri þurrkatíð og brakandi sól sem hefur verið fyrir vestan síðustu daga. „Drullan er að ná príma ástandi og veðurspáin fyrir morgundaginn er góð svo það stefnir í hörkumót,“ segir Benedikt.

Blásið verður til leiks á morgun á slaginu tólf og Benedikt segir að mótið klárist á morgun. Hann vill koma á framfæri áskorun. „Það er enginn Mýrarbolti án Fallega smiðsins, Péturs Magnússonar. Hann var fæddur til að spila mýrarbolta. Ég skora á Pétur og lið hans, FC Kareoke, að mæta á morgun og verja titilinn frá því í fyrra.“

smari@bb.is

DEILA