Staða atvinnuleysis er svipuð á milli ára

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru að jafnaði 205.800 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í júní 2017, sem jafngildir 85,5% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 201.100 starfandi og 4.700 án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 83,5% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 2,3%. Samanburður mælinga fyrir júní 2016 og 2017 sýnir mjög litlar breytingar milli ára. Atvinnuþátttaka jókst lítillega eða um 0,3 prósentustig. Fjöldi starfandi jókst um 4.700 manns og hlutfall starfandi af mannfjölda hækkaði um 0,2 stig. Staða atvinnuleysis er svipuð á milli ára, en atvinnulausir voru í júní 2017 um 300 fleiri en í júní 2016 og hlutfallið nánast það sama.

Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi 2,5% í júní
Íslenskur vinnumarkaður sveiflast reglulega milli mánaða vegna árstíðabundinna þátta. Samkvæmt árstíðaleiðréttingu var fjöldi fólks á vinnumarkaði 197.600 í júní 2017 sem jafngildir 82,6% atvinnuþátttöku, sem er lækkun um 0,4 prósentustig frá maí 2017. Fjöldi atvinnulausra í júní var samkvæmt árstíðaleiðréttingunni 5.000 og fækkaði um 600 manns frá áætluðum fjölda atvinnulausra í maí. Hlutfall atvinnulausra lækkaði því á milli maí og júní 2017 um 0,3 stig, úr 2,8% í 2,5%. Leiðrétt hlutfall starfandi fólks í júní 2017 var 80,5%, sem er litlu lægra en í maí eða sem nemur 0,2 stigum. Þegar horft er til síðustu sex mánaða þá sýnir leitni vinnuaflstalna að þær nánast standa í stað hvort sem litið er til atvinnuleysis eða starfandi fólks.

bryndis@bb.is

DEILA