Síðasta Fokker-vél Air Iceland Connect flaug af landi brott frá Reykjavíkurflugvelli í morgun. Þetta eru mikil tímamót hjá flugfélaginu því Fokker-vélar hafa verið í rekstri þess frá árinu 1965, eða í yfir hálfa öld. Flugvélinni var flogið til Hollands þar sem nýir eigendur frá Kanada taka við henni.
Vélin sem tók á loft í morgun er Fokker-50 sem kallast TF-JMS. Hún er síðust af fjórum Fokker-50 vélum sem kanadíska fyrirtækið Avmax keypti af Air Iceland Connect. Vélin var ein af sex Fokker 50 vélum sem voru keyptar nýjar til landsins árið 1991.
smari@bb.is