Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar boðaði til aukafundar í hádeginu í dag til að ræða ályktun sveitarfélagsins vegna þeirrar niðurstöðu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi að banna fiskeldi í Ísafjarðardjúpi. Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri reifaði málið í upphafi fundar og í kjölfarið tóku bæjarfulltrúar til máls.
Arna Lára Jónsdóttir formaður bæjarráðs upplýsti að þegar loksins var boðað til fundar starfshópsins og fulltrúa sveitarfélaga var tiltekið í fundarboði að nýútgefið áhættumat Hafrannsóknastofnunar um fiskeldi í Ísafjarðardjúpi væri ekki efni fundarins og mætti ekki ræða. Bæjarstjórnir þurftu að óska eftir leyfi ráðherra til að fá fund með starfshópnum.
Með fréttinni má sjá upptöku af fundinum, hljóð- og myndgæði eru ekki fullkomin.
Hér að neðan er ályktun bæjarstjórnar
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar gagnrýnir harðlega hugmyndir um að laxeldi í Ísafjarðardjúpi verði slegið á frest á grunni fyrirliggjandi áhættumats frá Hafrannsóknarstofnun.
Þá getur bæjarstjórn alls ekki sætt sig við að ekkert samráð sé haft við íbúa á norðanverðum Vestfjörðum í stefnumótum um fiskeldi og nánast látið sem þeir séu ekki til sem hagsmunaaðilar þegar kemur að laxeldi við Ísafjarðardjúp.
Bæjarstjórn gerir þá kröfu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann setji á starfshóp með aðild sveitarfélaga við Djúp sem rýni framkomnar tillögur og áhættumat vegna laxeldis þar sem leitt verði í ljós hvað þarf til að fiskeldi geti hafist í Ísafjarðardjúpi án ónauðsynlegra tafa.
Ekki verður fallist á að laxar í Ísafjarðardjúpi eigi sér líffræðilega sérstöðu í samanburði við aðra íslenska laxa með þeim hætti að vernd þeirra geti talist náttúruvernd, enda voru ár í Ísafjarðardjúpi ræktaðar upp úr engu á 20. öldinni – með laxastofnum víðsvegar að af landinu.
Ekki verður heldur fallist á að „Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi“ sé í dag tilbúið til þess að verða gert að undirstöðuþætti í burðarþolsmati. Stutt er síðan hafist var handa við gerð áhættumatsins. Til þess að áhættumatið teljist vísindalegur grunnur þarf það að hljóta trausta vísindalega rýni þannig að leitt verði í ljós hvort núverandi nálgun áhættumatsins geti talist fullnægjandi.
Öll sveitarfélög á Vestfjörðum hafa mótað sameiginlega stefnu um sjálfbæra þróun í umhverfislegu og félagslegu tilliti. Það verður því ekki unað við að raunhæf þróun samfélagsins verði slegin af borðinu á veikum eða illa undirbúnum forsendum. Það er vilji Ísafjarðarbæjar að farið verði af stað með laxeldi í sjó í Ísafjarðardjúpi, en að það verði gert með fullri virðingu fyrir náttúru, umhverfi og mannlífi – þannig að samfélög við Djúp fái að blómstra án þess að valda óafturkræfu tjóni á náttúru landsins.