Eitt þeirra mála sem kemur til kasta Alþingis í vetur og mun ekki falla eftir flokkslínum, er skipulag sjókvíaleldis á laxi. Þetta er mat Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem hann setur fram í grein í Morgunblaðinu í dag. „Miklir hagsmunir eru í húfi en um það verður vart deilt að mikil tækifæri geta verið fólgin í fiskeldi. Kannski er það barnaleg bjartsýni að ætla að hægt sé að sætta sjónarmið náttúruverndar og helstu talsmanna sjókvíaeldis – koma í veg fyrir að andstæðar fylkingar komi sér sem fyrir í skotgröfum,“ skrifar Óli Björn.
Í greininni harmar hann harða umræðu um starf nefndar um stefnumótun í fiskeldi, en nefndin á að skila af sér tillögum um miðjan mánuðinn.
„En jafnvel áður en hópurinn sendir frá sér stafkrók hafa menn komið sér fyrir í skotgröfunum. Væntanlegar tillögur eru gerðar tortryggilegar fyrir fram. Með sama hætti sitja starfsmenn Hafrannsóknastofnunar undir ámæli fyrir nýlega skýrslu um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi. Gagnrýnin er hörð og vísindaheiður viðkomandi jafnvel dreginn í efa.“
Sjókvíaeldi er langt í frá áhættulaust, skrifar þingmaðurinn og bendir á reynslu annarra þjóða. „Hugsanleg erfðablöndun getur brotið niður náttúrulega laxastofna í íslenskum ám. Laxalús og sjúkdómar geta magnast, með skelfilegum afleiðingum fyrir náttúruna. Og um leið verður stoðum kippt undan mikilvægri búgrein hér á landi – nýtingu veiðihlunninda sem skiptir margar byggðir miklu.“
Óli Björn segir að hann ætli ekki að koma sér undan samræðum eða víkjast undan því að taka afstöðu þegar starfshópur um stefnumótun í fiskeldi skilar tillögum sínum.
smari@bb.is