Enn og aftur er vegalagning um Teigsskóg komin í uppnám. Það er óásættanlegt með öllu og staða sem þessi getur ekki gengið lengur.
Í nýlegu svari sem ég fékk frá samgönguráðherra kemur fram að ráðherra sé ekki að skoða sérstaka lagasetningu til að liðka fyrir vegaframkvæmdum um Teigsskóg (http://www.althingi.is/altext/146/s/1070.html). Því er það ábyrgðarhlutverk þingmanna í Norðvesturkjördæmi að taka málið í sínar hendur, því lagasetning hlýtur að koma til greina þegar staðan er enn og aftur orðin þessi. Sérstaklega þar sem þær áætlanir sem settar voru fram árið 2014, hafa ekki gengið upp.
Haustið 2014 funduðu þingmenn Norðvesturkjördæmis m.a. með þáverandi samgönguráðherra um mikilvægi þess að nýr vegur yrði lagður um Teigsskóg. Ýmsar leiðir voru lagðar á borðið til að finna aðgerð sem yrði til þess að hægt væri að byrja vegalagningu sem fyrst. Flestir þingmenn kjördæmisins, ef ekki allir, vildu fara í lagasetningu til að höggva hnút á þá stjórnsýsluflækju sem nýr vegur um Teigsskóg er. Samkvæmt þeim svörum sem þingmenn fengu á fundinum þá átti endurupptaka á fyrra umhverfismati að vera stysta leiðin í átt að settu markmiði. Það ferli tæki innan við 18 mánuði og vegaframkvæmdir gætu hafist á árinu 2016 (http://www.visir.is/g/2014141019455). Núna árið 2017 erum við enn á byrjunarreit og ekkert staðist sem rætt var á fundinum þarna um árið.
Í öllu þessu ferli, hef ég sem þingmaður Norðvesturkjördæmis sett fram ýmsar fyrirspurnir um málið, m.a. um áfangaskiptingu verkefnisins, eyrnamerkt fjármagn til verkefnisins og fyrirspurn um lagasetningu eða aðrar aðgerðir til að koma verkefninu af stað. Allar þessar fyrirspurnir, sem og aðrar má finna hér: http://www.althingi.is/altext/cv/is/fyrirspurnir/?nfaerslunr=1161
Við virðumst enn og aftur vera á byrjunarreit. Áætlanir hafa ekki gengið upp og því virðist lagasetning vera orðin eina færa leiðin. Það er ábyrgðarhlutverk okkar þingmanna Norðvesturkjördæmis að ganga í málið og koma þessu mikilvæga samgönguverkefni áfram. Þetta getur ekki gengið svona lengur.
Elsa Lára Arnardóttir
þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.