Fréttir af enn frekari töfum á uppbyggingu á Vestfjarðavegi nr. 60 um Gufudalssveit gaf umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis tilefni til að funda um málið nú á dögunum og spyrja fulltrúa Vegagerðarinnar nánar um stöðuna. Þar kom fram að óbreyttu munu framkvæmdir ekki hefjast fyrr en mögulega um mitt ár 2018.
Það er aðallega tvennt sem ég tel núna skipta máli og kom fram á fundinum. Annars vegar það að öll efnisleg atriði málsins liggja nú fyrir í nýju mati á umhverfisáhrifum og í áliti Skipulagsstofnunar. Búið er að taka tillit til margvíslegra athugasemda, draga verulega úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfið og eldri ágreiningsefni um stjórnsýslumeðferðina heyra enn fremur sögunni til. Hins vegar það að þær tafir sem eru nú á því að hægt verði að gefa út leyfi fyrir framkvæmdinni snúa að stjórnsýslulegum formreglum. Þá fyrst og fremst vegna málsmeðferðartíma við uppfærslu á aðalskipulagi Reykhólahrepps vegna nýrrar og bættrar veglínu á hluta leiðarinnar.
Fyrst svo sérstaklega háttar til og með hliðsjón af þeim gríðarlegu almannahagsmunum sem eru undir í þessu máli tel ég að það hljóti að koma til skoðunar að heimila framkvæmdina með sérstökum lögum frá Alþingi núna strax í haust.
Ég geri mér grein fyrir því að veiting framkvæmdaleyfis með lögum er frávik frá hinum almennum reglum gildandi réttar. En þá er ágætt að hafa í huga að tafir á uppbyggingu Vestfjarðavegar nr. 60 eiga sér engin fordæmi. Á næsta ári verða liðin 20 ár frá því að Alþingi samþykkti vegaáætlun um uppbyggingu heilsársvegar milli Reykjavíkur og Patreksfjarðar og 18 ár frá því framkvæmdir áttu að hefjast á vegakaflanum á milli Bjarkalundar og Flókalundar. Þó svo að margt hafi verið gert frá þeim tíma er uppbygging á veginum um Gufudalssveit ekki enn hafin.
Enginn ágreiningur er um mikilvægi þess að byggja nýjan veg um Gufudalssveit. Núverandi vegslóði er ótækur og stórhættulegur. Almannahagsmunirnir eru verulegir og óumdeilanlegir og því blasir við að frekari tafir eru með öllu óásættanlegar. Sérstaklega í ljósi þess að leyst hefur verið úr hinum ýmsu efnislegu álitaefnum í tengslum við framkvæmdina í samræmi við gildandi skipulags- og náttúruverndarlög og stjórnsýslulegri málsmeðferð í þeim þætti lokið í öllum veigameiri atriðum.
Að öllu þessu virtu er nokkuð vandalaust að rökstyðja nauðsyn fyrir sérstakri heimild til framkvæmda með lögum og það er eitthvað sem hlýtur að koma til álita og vera hægt að ræða um á Alþingi.
Teitur Björn Einarsson
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og situr í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis