„Niðurstaðan er sú að niðurstaða starfshópsins er ekki fræðileg heldur pólitísk. Hagsmunir veiðiréttarhafa eru teknir fram yfir hagsmuni almennings. Kynblandaður lax gengur fólki framar. Svo einfalt er það.“ Þannig hljómar niðurlag pistils Kristins H. Gunnarssonar, fyrrverandi þingmanns Vestfirðinga. Í pistlinum fer Kristinn yfir sviðið eftir að starfshópur um stefnumótun í fiskeldi skilaði af sér tillögum sínum í gær. Hann segir grunnforsendu í starfi hópsins vera að hagsmunir íbúa víki fyrir hagsmunum veiðiréttarhafa.
„Með öðrum orðum að hagsmunir veiðiréttarhafa skuli alltaf ráða. Út frá þessari grunnforsendu er svo spunnið framhaldið. Með þessari öfugmálatúlkum er litið framhjá efnahagslegri þýðingu málsins. Það er alvarlegt sérstaklega fyrir íbúa við Ísafjarðardjúp. Ætla má að árlegar tekjur af laxveiði þriggja áa í Ísafjarðardjúpi séu 25 milljónir króna. Útflutningstekjur af 30.000 tonna laxeldi í Djúpinu eru taldar vera um 25 milljarðar króna. Þær eru þúsund sinnum meiri. En samkvæmt rökstuðningi nefndarmanna víkja meiri efnahagslegir hagsmunir fyrir minni. Engin störf eru vegna laxveiðanna en laxeldið skapar 600 – 700 störf samkvæmt mati Byggðastofnunar. En aftur skulu meiri hagsmunir víkja fyrir minni,“ segir Kristinn meðal annars.
Hann gefur ekki mikið fyrir hreinleika laxastofna í Ísafjarðardjúpi og segir þá „hrognakokteil“ úr ýmsum ám á landinu eftir margra áratuga ræktunarstarf.
„Þá er það hitt atriðið um villta laxinn sem þurfi að vernda. Það er kannski ekki alveg víst að kalla megi þá laxastofna sem eru í ánum villta. Að minnsta kosti segir í kynningu á veg Landssambands veiðifélaga um Laugardalsá að „Þarna er eitt besta dæmi um vel heppnaða fiskrækt hérlendis, en áin var fisklaus allt til að fiskvegur var sprengdur í Einarsfoss.“
Áin var sem sé fisklaus. Það þýðir að ekki er um neinn upprunalegan stofn að ræða heldur er hann aðfluttur úr öðrum ám. Jafnvel þótt svo slysalega vildi til að stofninn í Laugardalsá hyrfi af einhverjum sökum er hann samt til annars staðar þaðan sem seiðin komu.
Í hinum ánum tveimur, Hvannadalsá og Langadalsá hefur verið bætt við þann stofn sem þar kann að hafa verið til. Samkvæmt skýrslu Þórs Guðjónssonar frá 1989 um starfsemi Laxeldisstöðvarinnar í Kollafirði var sleppt seiðum frá stöðinni í allar árnar þrjár í Ísafjarðardjúpi á árunum 1965 – 1981.“
smari@bb.is