Verð á hótelgistingu hefur hækkað um meira en 60 prósent hérlendis í erlendri mynt á tveimur árum. Sú hækkun er vel umfram styrkingu á gengi krónunnar og því útskýrir hún hækkunina ekki nema að hluta. Stóran hluta hækkunar megi rekja til hærri gjaldskrár hótela og hótelgisting hækkað langt umfram þróun verðlags. Þetta er haft eftir Gústaf Steingrímssyni, hagfræðingi í hagfræðideild Landsbankans, í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir hann að stóraukin eftirspurn ferðamanna eftir gistirými sé sennilegasta ástæða þess hve mikið þjónusta hótela og gistiheimila hafi hækkað í krónum talið á undanförnum árum.„Menn virðast hafa verið í það góðri stöðu, og gistinýtingin er það há, að þeir hafa getað leyft sér að hækka verðið,“ segir Gústaf í samtali við Fréttablaðið. Hann nefnir aukin launakostnað sem aðra breytu sem gæti skýrt miklar hækkanir.