Fjölbreyttur nemendahópur tíunda árið í röð

Hluti nemenda, kennara og starfsfólks íslenskunámskeiðanna samankominn í portinu á Vestrahúsinu þar sem Háskólasetrið er til húsa.

Íslenskunámskeið Háskólaseturs Vestfjarða fyrir útlendinga standa nú yfir og eru þátttakendur í ár hátt í 70 talsins. Þetta er tíunda árið í röð sem Háskólasetrið býður upp á slík námskeið og eru þau fyrir löngu orðin rótgróinn liður í starfsemi setursins.

Boðið er upp á þrjú byrjendanámskeið, tvö á Núpi í Dýrafirði og eitt á Ísafirði auk nokkurra námskeiða fyrir lengra komna, en þau námskeið fara einungis fram á Ísafirði. Nemendahópurinn er fjölbreyttur, skiptinemar og nemendur sem eru að hefja fullt nám við háskóla á Íslandi eru áberandi en einnig eru einstaklingar sem hafa brennandi áhuga á íslensku og Íslandi og koma gagngert á námskeið til að viðhalda kunnáttu og þekkingu sinni á landi, þjóð og íslenskri tungu.

Námskeiðin eru byggð upp með hefðbundinni bekkjarkennslu á morgnana en eftir hádegið er kennslan brotin upp með valnámskeiðum þar sem boðið er upp á margt skrýtið og skemmtilegt s.s. kórsöng, búðarrall, rímnahefð og íslensk blótsyrði. Lögð er áhersla á að nemendur kynnist íslensku samfélagi og læri að bjarga sér á tungumálinu.

Síðasti kennsludagur námskeiðanna er á föstudaginn og þá halda erlendu nemendurnir hver í sína áttina, ýmist heim á leið eða í frekar nám á Íslandi.

smari@bb.is

DEILA