Eldur kom upp í seiðaeldisstöð Arctic Fish í botni Tálknafjarðar um klukkan 15 í gær. Eldurinn kviknaði í rafmagnsútbúnaði. Slökkviliðin á Tálknafirði, Patreksfirði og Bíldudal fóru á vettvang og þegar að var komið hafði eldur læst sig í vegg og loft inni í húsinu, sem er sambyggt. Var það fyrir snarræði slökkviliðsmanna að það náðist að slökkva eldinn áður en hann komst í mörg plastker sem þar eru.
Að sögn Sigurðar Péturssonar, framkvæmdastjóra Arctic Fish, kviknaði eldurinn út frá háþrýstidælu. Á vef mbl.is er haft eftir honum að skammhlaup hafi orðið í háþrýstidælunni og að tjónið hafi verið lítilsháttar og einungis dælan sjálf hafi eyðilagst. „Þetta var alveg afmarkað, ekki nálægt okkar fiskum eða neitt,“ segir Sigurður.
smari@bb.is