Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur ekki myndað sér ákveðna skoðun á því hvort best sé að nýr vegur í Gufudalssveit liggi um Teigsskóg líkt og Vegagerðin sækist eftir. Í áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismati Vegagerðarinnar fyrir nýjan Vestfjarðaveg í Gufudalssveit er mælt með að vegurinn liggi í jarðgöngum undir Hjallaháls í stað þess að leggja nýjan veg um Teigsskóg. Áður en Vegagerðin sækir um framkvæmdaleyfi fyrir veglagningunni hjá Reykhólahreppi þarf að breyta aðalskipulagi. Vilberg Þráinsson, oddviti Reykhólahrepps, segir í samtali við blaðamann mbl.is að sveitarstjórnin hafi ekki myndað sér skoðun á hvaða veglína verði fyrir valinu, það gerist ekki fyrr en aðalskipulaginu verði breytt.
„Við erum búin að vera að safna að okkur upplýsingum síðustu mánuði og erum að tala við alla aðila sem koma að þessu máli. Við höfum ráðið mann sem heldur utan um þessar upplýsingar. Við reynum að vinna þetta eins vel og við getum svo við getum rökstutt þá ákvörðun sem við tökum,“ segir Vilberg.
smari@bb.is