Upp úr síðari heimsstyrjöld hófst uppbygging nútíma vegakerfis á Vestfjörðum. Þá komu til sögunnar þeirra tíma nýtísku vélar, jarðýtur, vörubílar, gröfur og nefndu það bara. Flestar ættaðar frá Bandaríkjunum. En það var ekki nóg að eignast vélar og tæki. Það þurfti menn til að stjórna þessum græjum. Og menn sem lögðu á ráðin og kunnu að leiðbeina svo vel færi. Þessir menn voru brautryðjendur. Á ótrúlega skömmum tíma ruddu þeir brautir svo til að hverjum einasta bæ á Vestfjörðum. Það var torsótt vegagerð, mold, grjót og sandur í bland. Mörg afrek voru þar unnin í þjóðarþágu. Þeir fóru yfir mela og móa, ár og læki, fjallahlíðar og grundir, eftir fjörum og yfir firði, yfir fjöll, yfir skriður og fyrir nes. Og jafnvel í gegnum vestfirska skóga og kjörr. Þetta voru snillingar sem lögðu hönd á þennan plóg. En eyðilögðu þessir brautryðjendur landið?
Án vega hefðu Vestfirðir verið óbyggilegir
Engu er líkara en fjöldi vestfirskra vega hafi verið greyptir í landið þegar landnámsmenn komu. Svo inngrónir eru þeir landslaginu i dag. Hvarvetna. Hefur einhver heyrt að þessir lífsnauðsynlegu vegir hafi eyðilagt vistkerfi Vestfjarða? Hafa þeir eyðilagt einhverja skóga? Og fjöll eða dali?
Auðvitað hafa verið lagðir hér vegir sem menn hafa ekki verið ánægðir með staðsetningu þeirra. Og komið hefur fyrir að gróið land hefur goldið þess. Þá hafa menn bara bölvað Vegagerðinni og lífið haldið áfram. En þetta eru undantekningarnar sem sanna regluna: Vestfirskir vegir voru almennt snilldarlega lagðir og bera höfundum sínum fagurt vitni. Og hafa komið Vestfirðingum að ótrúlega góðum notum. Hvernig hefðu Vestfirðir verið án vega? Óbyggilegir. Þarf ekki annað en líta til Hornstranda í þeim efnum. Það voru snillingar sem lögðu hönd á hinn vestfirska vegagerðarplóg.
Brautryðjandinn Elís Kjaran sagði eitt sinn að margir teldu að hann væri að eyðileggja landið og náttúruna með því að ryðja þessa vegi sína og troðninga. Hann svaraði því til, að náttúran sjálf væri alltaf að breyta landslaginu. Daglega sagði Elli og þarf ekki vitnanna við.
Hundrað sinnum Teigsskógur!
Það sem hér er sagt um vestfirska vegi, blasir við öllum sem um þá fara. Því óskiljanlegra verður að telja ruglið með Teigsskóg í Gufudalshreppi. Akfær vegur var lagður þar í sveit um og upp úr 1950. Hvers vegna ekki má leggja nýjan veg þar um slóðir í stað gamla moldarvegarins er óskiljanlegt öllu venjulegu fólki. Þar er Vestfjörðum haldið í spennitreyju af einhverjum spekingum, í stofnunum sem sumar lifa fyrir sjálfar sig. Þó spakir séu hafa þeir ekki gáfur til að sjá að búið er að leggja vegi vítt og breytt um alla Vestfirði á að minnsta kosti 100 sambærilegum stöðum eins og Teigskjarrið er. Engir meinbugir þar á. Náttúran alveg söm við sig eftir því sem séð verður. Eru Vestfirðingar dauðir úr öllum æðum að láta þetta Teigsskógsrugl endalaust yfir sig ganga? Með öðrum orðum: Eiga einhverjir strákar, sem sumir hafa aldrei komið austur fyrir Elliðaár, að stjórna því leynt og ljóst hvernig Vestfirðingar haga sínum málum?
Að umgangast landið á réttan hátt
Vitanlega verðum við að fara varlega í umgengni við landið okkar. Sýna því fulla tillitssemi og nærgætni. Ekki síst okkar sjálfra vegna. Um það eru flestir sammála í dag sem betur fer. Sá breytti hugsunarháttur er mörgum að þakka, til dæmis öðlingum eins og Ómari Þ. Ragnarssyni. En það er ekki þar með sagt að við eigum bara að horfa á Ísland farsælda Frón. Við þurfum að nýta það á réttan hátt. Svo sagði Vestfirðingur að nafni Jón Sigurðsson.
Hallgrímur Sveinsson, Guðmundur Ingvarsson, Bjarni G. Einarsson: