Bæjarstjórn Vesturbyggðar skorar á Alþingi að beita lagasetningu nú þegar til að höggva á þann hnút sem staða vegalagningar um Vestfjarðaveg 60 er í, oftast nefnd vegagerð í Teigsskógi. Í ályktun bæjarstjórnar segir að það sé ekki samboðið nútímasamfélagi að standa í vegi fyrir uppbyggingu atvinnulífs í heilum landsfjórðungi.
Staða málsins í dag er að Reykhólahreppur þarf að koma nýjum veglínum inn á aðalskipulag, en breytingar á aðalskipulagi taka minnst sex mánuði. Við breytingarnar og útgáfu framkvæmdaleyfis þarf hreppurinn að taka afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um vegalagningu í Teigsskógi, en í áliti stofnunarinnar á umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar var lagst gegn framkvæmdum í Teigsskógi. Aðalskipulag tekur ekki gildi nema með samþykki Skipulagsstofnunar og ekki er hægt að veita framkvæmdaleyfi nema það sé í samræmi við skipulag.
smari@bb.is