Virkjanaskrímsli, strandaður sægreifi eða galdrakind

Í fjörunni við gömlu bryggjuna á Eyri við Ingólfsfjörð liggur nú hræ af kynlegri skepnu sem ekki er auðvelt að þekkja. Þetta kemur fram á vefnum Litla Hjalla í gær. Það voru systurnar Sigríður og Dísa Gunnarsdóttir sem fundu hræið og tóku myndir. Leitað er eftir upplýsingum um hvaða skepna þetta gæti verið.

Virkir í athugasemdum hafa komið með ansi frumlegar hugmyndir, þetta gæti verið strandaður sægreifi sem ekki tekst að bjarga nema sjávarútvegsráðherra bakki inn í Sjálfstæðisflokkinn segir Jón Atli Játvarðsson. Öllu skelfilegri er hugmynd Barkar Hrólfssonar, hann telur þetta vera galdrakind af Ströndum, bíða þurfi eftir fullu tungli og stökkva þá á hræið saltvatni sem blessað hefur verið af þremur biskupum af þremur kynslóðum. Þarnæst skal fara með eftirfarandi þulu ­„Galdrakind, galdrakind, steypist þú á þrítugfalt dýpi, og komir þú aldrei aftur. Í nafni heilags Jóakims af Þumbríu. Amen, amen, amen“ Og á meðan farið er yfir þuluna skal signa sig í fjórar höfuðáttir. Brynjólfur Sigurgrímsson telur þetta vera virkjanaskrímsli sem gengur á land miðsumars þar sem á að virkja fallvötn og er segir þetta vera viðsjárverðan grip.

bryndis@bb.is

DEILA