Fornminjafélag Súgandafjarðar hóf síðastliðið sumar byggingu á verbúð eins og þær voru á öldum áður við sjávarsíðuna þar sem sjómenn bjuggu þegar þeir voru í verinu. Í Staðardalnum var róið til fiskjar frá nokkrum verstöðvum: Stöðinni, Árósnum og Keravíkinni.
Núverandi verbúð er staðsett á sama stað og réttarskáli kvenfélagsins Ársólar stóð áður á svokölluðum Hreggnasa. Í næsta nágrenni má sjá tóftir af verbúðum og fleiri gamlar tóftir uppgötvuðust þegar drónamyndir voru teknar meðan á byggingu stóð. Verkefnið var unnið í góðu samstarfi við Minjastofnun sem m.a. tók út svæðið áður en framkvæmdir hófust til að tryggja að engum minjum yrði raskað.
Síðastliðið sumar voru veggirnir hlaðnir og í sumar var sett torfþak á verbúðina og gaflar og hurð smíðuð. Við hliðina á verbúðinni er sexæringur sem Fornminjafélag Súgandafjarðar fékk frá bátasafninu á Reykhólum og er hann um 80 ára gamall. Framundan er að mála bátinn og smíða bátaspil líkt og sjá mátti við Stöðina í næsta nágrenni. Til stendur að gera meira í kringum verbúðina til að líkja sem mest eftir umhverfi verbúðanna, m.a. aflraunasteinar og fiskigarðar. Inni í búðinni verður reynt að líkja eftir því sem var með svefnstæði ofl. Bekkur er staðsettur við hliðina á verbúðinni sem gerir hann að ákjósanlegum stað til að stoppa á og njóta útsýnisins.
Fjöldi félagsmanna og annarra velunnara kom að verkefninu og sýndi því mikinn velvilja. Allt var unnið í sjálfboðavinnu og það sem þurfti að kaupa var keypt með félagsgjöldum Fornminjafélagsins.
Verbúðin verður vígð á næstunni en hún hefur fengið nafnið Ársól eftir kvenfélaginu sem rak réttarskálann sem var á sama stað og búðin er byggð á.
Verbúðin er öllum opin og öllum velkomið að kíkja inn og lifa sig inn í þúsund ára sögu útræðis á þessum fallega stað í Súgandafirði.