Í vikunni veitti Landsbankinn fimm milljónir króna í umhverfisstyrki og fór 750.000 í tvö verkefni á Vestfjörðum.
Annars vegar er um að ræða styrk til Landeigendafélags Bjargtanga við Látrabjarg upp á 500.000 krónur. Styrkurinn er veittur til að standa að verndun landsins í Látravík og stjórnun umferðar gangandi og akandi ferðamanna á svæðinu. Ætlunin er að bæta aðstöðu á tjaldsvæðinu á Brunnum í Látravík og á Bjargtöngum og setja upp merkingar sem banna næturdvöl annarsstaðar en á tjaldsvæðinu því þar er eina salernisaðstaðan. Einnig þarf að afmarka með böndum það svæði þar sem ekki er æskilegt að ganga eða aka því ferðamenn aka oft utan vega til að stytta sér gönguna niður í sandfjöruna.
Hins vegar var það Áhugamannafélag um samgöngur í Grunnavík sem fékk styrk upp á 250.000 krónur. Styrkurinn er veittur til að endurnýja göngubrú yfir Staðará í Grunnavík á vinsælli gönguleið um Jökulfirði. Endurbætur eru orðnar aðkallandi en félagsmenn hafa séð um að halda við brú til að tryggja öryggi ferðamanna og gesta í Grunnavík en einnig til að beina umferð frá viðkvæmum gróðursvæðum.
bryndis@bb.is