Eftir glæsilega frammistöðu íslenska landsliðsins á móti frökkum er kominn tími á undirbúning fyrir næsta leik. Það er Sviss sem við viljum að lúti í gras á morgun kl. 16:00 og liðið okkar komist í betri stöðu í riðlinum.
Þingeyrarakademín hefur löngum haft skoðanir á landsins gagni og nauðsynjum og eftir hið umdeilda víti sem dæmt var á Ísland í frakkaleiknum var kallað til neyðarfundar í akademíunni og eftirfarandi ályktun hefur verið send fjölmiðlum:
Þingeyrarakademían sendir íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu sérstakar baráttukveðjur að vestan. Jafnframt lýsir hún aðdáun sinni á þeirri fallegu framkomu, baráttuhug og leikgleði sem kom glöggt fram í leiknum við Frakka.
Akademían telur að ítalska konan hafi ekki haft neinar forsendur til að dæma stroffí í lok leiks. Það sá enginn neitt brot. Sú franska lét sig bara detta. Það sáu allir. Þetta var ekki einu sinni fríspark!
Svo sleppti sú gamla stroffíinu í fyrri hálfleik sem íslensku kjarnorkustelpurnar áttu greinilega að fá, að dómi allra spekinga hér fyrir vestan. En það þýðir ekkert að röfla við dómarann. Hann dæmir og ræður.
En þetta stendur allt til bóta. Spámaður akademíunnar hefur gefið það út að að Ísland muni sigra Frakkland í undanúrslitum 2-1. Þangað munum við nefnilega komast segir í spádómnum. Það getur allt skeð. Trúum á stelpurnar okkar, en heimtum ekki neitt.
bryndis@bb.is