Stór dagur á höfninni

Frá Ísafjarðarhöfn . Mynd: Gústi.

Það var mikið um að vera á Ísafjarðarhöfn í gær en fjögur skemmtiferðaskip heiðruðu Ísfirðinga með nærveru sinni. „Við höfum upplifað stærri daga í fjölda farþega talið, en við höfum  aldrei áður tekið fjögur skip upp að bryggju og allir hafnarkantar voru uppteknir,“ segir Guðmundur M. Kristjánsson hafnarstjóri. Dagurinn í gær var sögulegur fyrir fleiri hluta sakir því Páll Pálsson ÍS lét úr höfn um fimmleytið í gær í síðasta sinn, en togarinn hefur verið seldur til Vinnslustöðvarinnar. Nýr Páll Pálsson kemur svo til Ísafjarðar í haust.

Skipin sem komu í gær voru Le Soleal, Ocean Diamond, NG Orion og Rotterdam. Guðmundur segir að vertíðin á höfninni hafi gengið mjög vel. „Samkvæmt plani sumarsins áttu skipakomurnar að vera 106 talsins. Tvö skip aflýstu ferðum sínum vegna bilana, annað ætlaði að koma sex sinnum til Ísafjarðar og hitt einu sinni. Þá hætti eitt skip við vegna veðurs. Við endum í rétt um 100 skipakomum sem er met og bókanir fyrir næsta árs ganga vel og það ætti ekki að vera síðra,“ segir Guðmundur.

DEILA