Skýr merki um erfðablöndun

Villtur lax. Mynd: Þorleifur.

Á vefnum fiskifrettir.is í dag er frétt um að „fundist hafi í fyrsta sinn sterkar vísbendingar um erfðablöndun úr eldisfiski af norskum uppruna yfir í náttúrulega íslenska laxastofna“ og vísað er í nýbirta skýrslu Hafrannsóknarstofnunar.

Í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar kemur fram að í íslenskri vísindagrein frá árinu 2013 hafi í fyrsta sinn verið sýnt fram á erfðablöndun úr eldisfiski yfir í náttúrulega íslenska stofna en það var árkerfi Elliðaáa og um var að ræða að bæði eldisfiskar og hafbeitarfiskar sóttu í það vatnakerfi.

Í skýrslunni kemur ennfremur fram að skýr merki um erfðablöndum hafi mátt sjá í tveimur laxastofnum á Vestfjörðum, í Botnsá í Tálknafirði og í Sunndalsá í Trostanfirði. Í Botnsá fundust fjórir blendingar og tvö hrein eldisseiði. Í Sunndalsá fundust fimm blendingar eldisfiska og villtra laxa og í Mjólká fundust tveir kynþroska laxar. Þess má geta að í skýrslu Veiðimálastofnunar fyrir árið 2015 og 2014 eru ekki skráðir neinir laxar á land í þessum ám! Það kemur líka fram í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar að „mjög lítil laxagengd er að jafnaði í þessar ár“, skilgreining á hvað telst „mjög lítið“ kemur ekki fram.

Umfangsmiklar hafbeitartilraunir hófust í Kollafirði 1987 en í frétt Morgunblaðsins frá árinu 1989 kemur fram að 300 fjölskyldur af ólíkum stofnum laxfiska hafi verið teknar í eldi í Kollafirði. Leiða má að því líkum að afrakstur þessa eldis gæti mjög víða í laxveiðiám landsins. Laxeldisstöð ríkisins hóf árið 1961 rannsóknir á hafbeit hér við land og síðar kynbætur. Hin íslenski víkingalax gæti hafa tekið stórstígum breytingum með þessum kynbótum.

Hér er hlekkur á skýrslu Hafrannsóknarstofnunar.

bryndis@bb.is

DEILA