Svokölluðu skilamati vegna byggingar snjóflóðavarna í Bolungarvík hefur verið skilað og er nú aðgengilegt á heimasíðu Bolungarvíkurkaupstaðar. Í samantekt matsins kemur fram að þrátt fyrir ýmis áföll við byggingu snjóflóðavarnargarðanna hafi byggingarkostnaður verið undir áætlun. Upphafleg áætlun hljóðaði upp á 1.075,6 mkr en raunkostnaður hafi verið 1.071,0 mkr á sama verðlagi.
Framkvæmdir hófust í lok júní 2008 og lauk í ágúst 2012 en formleg vígsla fór ekki fram fyrr en í september 2014. Í september 2009 hrundi hluti af netgrindum í garðinum og tafði það verkið talsvert og í kjölfarið var hönnun styrkingarkerfisins endurskoðuð af framleiðanda og íslenskum hönnuðum.
Í lokaorðum skilamatsins segir: „Lokaniðurstaða framkvæmdarinnar gefur þó fullnægjandi varnir fyrir alla íbúðarbyggð í Bolungarvíkurkaupstað. Frágangur og útlit hefur tekist vel. Uppgræðsla var framkvæmd jöfnum höndum og hefur tekist vel. Gæði verksins af hálfu verktaka eru mjög góð.“
Um skilamat:
Í 16. grein laga nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda er ákvæði um gerð skilamats. Þar segir: „Að lokinni verklegri framkvæmd og úttekt skal fara fram skilamat. Í matinu skal gerð grein fyrir því hvernig framkvæmd hefur tekist miðað við áætlun. Enn fremur skal þar gerður samanburður við hliðstæðar framkvæmdir sem þegar hafa verið metnar.” Þá er í sömu grein kveðið á um að Framkvæmdasýsla ríkisins skuli setja nánari reglur um fyrirkomulag skilamats.
Í 7. grein reglugerðar nr. 715/2001 um skipulag opinberra framkvæmda segir að Framkvæmdasýsla ríkisins sjái um gerð skilamats og setji reglur um fyrirkomulag þess sem fjármálaráðherra staðfestir.
Þann 21. september 2001 gaf Framkvæmdasýsla ríkisins út reglur um fyrirkomulag skilamats, staðfestar af fjármálaráðherra, og er þetta skilamat unni eftir þeim reglum.
bryndis@bb.is