Drög að reglugerð um áhafnir vinnuskipa sjókvíaeldisstöðva eru nú til umsagnar hjá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Reglugerðardrögin eru samin í framhaldi af breytingum sem umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis lagði til á lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, með síðari breytingum, nr. 30/2007. Fólust þær meðal annars í breytingu á kröfum sem gerðar eru til mönnunar vinnuskipa sjókvíaeldisstöðva.
Áhafnalög gera ráð fyrir að ef um tvær aðalvélar er að ræða í skipi, eins og er í mörgum tilfellum lóðs- og dráttarskipa, sökum eðlis þeirra, þá er vélarafl þeirra lagt saman. Að hafa tvær vélar með tveimur skrúfum er æskilegt fyrir stjórnhæfi þessara skipa og er til mikilla bóta við vinnu þeirra, eykur verulega öryggi enda skiptir stjórnhæfi og snerpa öllu máli í vinnu lóðs- og dráttarskipa. Þá segir að um sé að ræða skip sem sinna afmörkuðum verkefnum um stuttar vegalengdir á takmörkuðu farsviði. Í starfi skipstjóra á slíkum vinnuskipum felst að sigla til og frá kvíum, viðhald myndavélabúnaðar, viðhald fóðurlagna, eftirlit með festingum og að sinna almennum öryggismálum stöðvanna og starfsmanna þeirra. Fyrirtækjunum hefur reynst erfitt að manna vinnuskip eins og um úthafsskip væri að ræða.
Samkvæmt reglugerðardrögunum þarf skipstjóri á vinnuskipi sjókvíaeldisstöðva að hafa lokið smáskipanámi og hafa 12 mánaða staðfestan siglingatíma. Að því gefnu að vinnuskipið sé 15 metrar eða styttri og undir 30 brúttórúmlestum að stærð.
Hér má nálgast reglugerðardrögin og frestur til að skila athugasemdum er til 4. ágúst.
bryndis@bb.is