Óvíst hvort forsætisráðherra vilji ræða fiskeldismál

Bjarni Benediktsson. Mynd: RÚV.

Forráðamenn sveitarfélaga á Vestfjörðum hafa ekki fengið staðfestingu á því hvort að verði af fundi með ráðherrum ríkisstjórnarinnar þar sem ræða á laxeldismál á Vestfjörðum. Í byrjun júlí óskuðu sveitarfélögin eftir fundi með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra og ráðherrum málaflokss fiskeldis, þeim Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra og Björtu Ólafsdóttur umhverfisráðherra. Auk þess var óskað eftir að Jón Gunnarsson, ráðherra sveitarstjórnarmála, sitji fundinn sem og forstjórar þeirra ríkisstofnana sem málaflokkurinn heyrir undir, þ.e. forstjórar Hafrannsóknastofnunar, Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar.

Pétur G. Markan.

„Við höfum ekki fengið svar við beiðni okkar en við erum að ýta eftir þessum fundi því það er mjög mikilvægt í þessari stöðu að forsætisráðherra og ráðherrar málaflokksins komi saman og ræði við okkur um þá stöðu er í uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum,“ segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga. Pétur segir að sveitarfélögin hafi fengið jákvæð viðbrögð frá Þorgerði Katrínu og Jóni Gunnarssyni um þennan sameiginlega. „Enda hafa ráðherrarnir tveir verið mjög fylgjandi eldisuppbyggingu á Vestfjörðum en hvað varðar þennan fund, þá er boltinn hjá forsætisráðherra,“ segir Pétur.

DEILA