Kirkjubækur eru sagnfræðingum og grúskurum ómetanleg uppspretta heimilda um forna tíð, lífs- og búskaparhætti. En það eru fleiri gögn sem lýsa ástandi og lífi landans og nú hefur Jón Jónsson menningarviti Strandamanna rekist á skýrslu héraðslæknis á Hólmavík frá árinu 1951 og þar má sjá að í mörgu voru verkin og vandamálin svipuð og nú, rúmum sextíu árum síðar.

Hér að neðan er sá hluti skýrslunnar sem Jóni fannst áhugaverður og setur á Facebook vegg sinn í gær.

Fólksfækkun í Hólmavíkurhéraði með mesta móti. Fólk fór að tínast burtu úr þorpunum, er á haustið leið og fyrirsjáanlegt var algjört atvinnuleysi.

 Atvinnuleysi mikið í sjávarþorpunum vegna sívaxandi aflatregðu með hverju ári. Útgerðin barðist í bökkum og afkoma þorpsbúa yfirleitt slæm. Fjöldi manns varð að leita sér atvinnu utan héraðs, bæði við sjóróðra sunnanlands og nokkrir jafnvel á Keflavíkurflugvelli.

 Litlar framfarir til almenningsþrifa á árinu. Þó var hafinn undirbúningur að virkjun Þverár fyrir Hólmavík. Verður það allmikið mannvirki, sem beðið hefur verið eftir lengi. Er von manna, að verkinu verði lokið eftir 1-2 ár. Rafmagnsnotkun hefur færst mjög í vöxt síðustu ár. Miklar umræður hafa verið um, hvað mætti verða atvinnulífinu til úrbóta í sjávarþorpunum.

Hefur aðstoðar ríkisstjórnarinnar verið leitað um kaup á 1-2 bátum í viðbót við þá sem fyrir eru. Veltur afkoma þorpanna á því, að hægt verði að halda útgerðinni við, þar til úr rætist með batnandi aflabrögð.

 Kom til mála, að reynt yrði að festa kaup á togara, þar sem fiskleysið á grunnmiðum var að eyðileggja bátaútgerðina. Að lokum virðast menn hafa orðið sammála um að reyna heldur að auka bátaútgerðina, meðfram í þeirri trú að afli muni glæðast, þegar nýju landhelgisákvæðin ganga í gildi.

 3 ný íbúðarhús í sveit reist á árinu, en byggingarframkvæmdir engar í þorpunum, nema nokkrar breytingar eldri húsa.

 … [F]undust við haustsmölun nokkrar kindur á Hólmavík, sem grunaðar voru um mæðiveiki. Var sá grunur staðfestur af sérfræðingum, sem komu frá rannsóknastöðinni á Keldum. Varð svo loks að ráði að fyrirskipaður var niðurskurður alls sauðfjár á Hólmavík og næstu bæjum. Vakti þetta mikinn ugg meðal bænda, sem von var, en niðurskurður og fjárskipti höfðu farið fram 3 árum áður.

 Mjólkursala í þorpin úr sveitunum er orðin hverfandi lítil. Flestir reyna að hafa kú fyrir sig, þótt erfiðlega gangi að afla fóðurs og engin fjós séu til fyrir allar kýrnar. Verður af því nokkur óþrifnaður utan húss, hve illa er fyrir komið þessum bráðabirgðafjósum.

 Kirkjum sæmilega við haldið. Kirkju vantar tilfinnanlega á Hólmavík, því kirkjusókn er erfið að Stað í Steingrímsfirði. Fer því messugjörð fram í hinu óvistlega samkomuhúsi þorpsins.

Samkomuhúsið á Hólmavík, sem stafrækt er sem félagsheimili, er að verða mjög úr sér gengið, enda naumast nema bráðbirgðahús (braggi). Er mikill áhugi fyrir byggingu nýs félagsheimilis. Önnur samkomuhús í héraðinu eru 5 talsins, 2 þeirra lítil, gömul og lasburða (á Heydalsá og Drangsnesi), en hin nýlegri og sæmilegar vistarverur (á Óspakseyri, Stóra-Fjarðarhorni og Klúku, Bjarnarfirði).

Sjúkrahúsið á Hólmavík rekið með sama hætti og byrjað var á árið áður. Er mikill áhugi á að halda rekstri þess áfram, þótt miklir fjárhagserfiðleikar séu á, vegna fjárhagserfiðleika stærstu hreppanna.

 Ný ljósmóðir, Sigþrúður Pálsdóttir, var sett til að gegna Kirkjubólsumdæmi (Hólmavík), þegar Ólöf Guðmundsdóttir sagði upp starfinu frá 1. október, en hún hafði þá þjónað umdæminu í 30 ár af mikilli trúmennsku.

 Fæðingar gengu yfirleitt vel. Getnaðarvarnir fara sífellt í vöxt, og er læknis á Hólmavík nú óspart leitað af því tilefni. Má vera, að versnandi efnahagur fólks ráði þar nokkru um.

Skólabörn í Hólmavíkurlæknishéraði (175) sæmilega hraust. Sjóngallar 17, kverkilauki 16, kverkabólga 3, eitlaþroti á hálsi 4, hvarmabólga 6, hryggskekkja 6, debilitas mentalis 2, urticaria 1, pubertas praecox 1, psoriasis 1, stigmata rachitica 2. Öllum var leyfð skólavist.

 Svæsin inflúensa barst með flugfarþegum úr Reykjavík 10. febrúar. Fyrst veiktist heimilisfólk á heimili á Hólmavík og bæjum í Kollafirði og á Bölum. Vikuna 3.-10. mars veiktist að heita má hvert mannsbarn á Hólmavík að kalla samtímis. Skólahald féll niður og vandræði urðu á heimilum. Allsvæsin pest, hár hiti, beinverkir og þungt kvef. Mjög bar á þreytu og sleni í sjúklingum lengi á eftir.

bryndis@bb.is

DEILA