Andstaða við inngöngu í Evrópusambandið er meiri á landsbyggðinni en á meðal íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Í nýrri könnun MMR kemur fram að 34,3 prósent íbúa á höfuðborgarsvæðinu eru hlynntir inngöngu Íslands í ESB, samanborið við 19,8 prósent íbúa á landsbyggðinni. Fólk á aldrinum 50 til 67 ára og með milljón eða meira í heimilistekjur á mánuði er líklegast til að vera hlynnt inngöngu Íslands í ESB í samanburði við fólk í öðrum aldurs- og tekjuhópum.
Meirihluti Íslendinga, eða 47,9 prósent, eru andvíg eða mjög andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið og 29 prósent kváðust hlynnt eða mjög hlynnt inngöngu.
Meðal stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar eru 67,5 prósent andvíg inngöngu. Meðal þeirra sem ekki styðja ríkisstjórnina eru 36,2 prósent andvíg inngöngu.
Könnunin fór fram 15. til 21. júní og voru 1017 einstaklingar valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.