Gestavinnustofur ArtsIceland á Ísafirði bjóða til listamannaspjalls í menningarmiðstöðinni Edinborg, föstudaginn 21.júlí. Þar munu þrír listamenn sem nú dvelja í hinum alþjóðlegu vinnustofum segja frá verkum sínum. Það eru þau SHIH YU CHU sem upprunalega kemur frá Taiwan og vinnur að kvikmyndagerð og hugmyndafræðilegri list, ástralska myndlistarkonan Lorna MacRithcie sem notast við fjölbreytta miðla og Han Sungpil sem er frá Suður-Kóreu og hefur ljósmyndað minjar um hvalveiðistöðvar og kolanámur, bæði á Suður- og Norðurheimskautinu.
Listamannaspjallið verður í Bryggjusal og hefst klukkan 17.
SHIH YU CHU er frá Taiwan en er búsettur í Chicago. Hann gerir heimildarmyndir og vinnur hugmyndafræðileg verk (concept art). Hann byrjaði sem kvikmyndagerðarmaður og listrænn stjórnandi í sjónvarpsþáttagerð. Hann hefur unnið sem leikstjóri, kvikmyndatökumaður og við klippivinnslu og unnið til verðlauna fyrir stafræna kvikmyndagerð. SHIH YU hefur lært og numið frá Indónesíu til Suður-Ameríku, New York til Tokyo. Við listsköpun sína hefur hann mestmegnis beint sjónum að snertiflötum mennskunnar í nútíma samfélagi við kapítalisma.
Um þessar mundir er SHIH YU einnig virkur á samfélagsmiðlum þar sem hann býr til skondin myndbönd sem hann birtir á Instagram síðu sinni iouoy56489. Hann starfar einnig sem Butoh dansari og vinnur að auglýsingagerð til uppgripa.
Verkið sem SHIH YU hefur unnið að á Ísafirði er Wave. Westfjords. Þar fjallar hann um staðinn sem ferðamenn sækja og skilja við. Verkið er myndbandsinnsetning sem sýnir nálgun listamannsins við landið, Ísland, og samskipti hans við samfélagið. Heimsóknir, myndataka og áframsending myndanna aftur til baka er helsta ferlið að baki verkinu. Með þessu móti hámarkar listamaðurinn meðvitund sína um landið, lífsstílinn, aðstæðurnar og samfélagið. Verkið kemur með nýja sýn á hvernig fólk neytir menningar í dag, jafnframt því sem það spyr: Hvernig getum við sneitt hjá markaðshyggju sem listamenn eða manneskjur yfir höfuð, þegar samfélög reiða sig meir og meir á ferðaþjónustu.
Lorna MacRitchie er frá Sydney í Ástralíu. Hún er fædd á Englandi og er um þessar mundir búsett í London þar sem hún hyggur á frekara nám í myndlist í haust við Central Saint Martins. Hún er myndlistarkona með bakkalárgráðu frá UNSW Art and Design í Sydney og vinnur með listmálun, skúlptúra, textíl, teikningu, keramik og innsetningar. Hún lagði einnig stund á myndlistarnám við Háskólann í Conneticut undir handleiðslu prentmeistarans Laurie Sloan. Lorna er hugmyndaríkur myndasmiður, hún hefur sett upp tímarit og starfað sem grafíklistamaður, meðal annars fyrir fjölmiðlafyrirtækið Cicada Press í Sydney.
Verkið sem Lorna MacRitchie vinnur að um þessar mundir er Taster II, sem er í senn hversdagslegt og fullt af leikgleði. Það kemur inn á líkamlegar langanir og ferlið að bíða og undirbúa. Þar er könnuð umbreytingin frá stúlku í konu og komið inn á þrá, heimilishald, nánd og skömm í gegnum endurtekna og yfirþyrmandi nálægð hundruða bleikra, mjúkra kubba.
Han Sungpil er frá Seoul í Suður-Kóreu. Hann lagði stund á nám í myndlist í heimalandinu með áherslu á ljósmyndun. Einnig hefur hann meistaragráðu frá Kingston háskóla í London þar sem hann sérhæfði sig í listrænni stjórnun fyrir nútímahönnun. Sungpil hefur haldið fjölda einka- og samsýninga víða um heim. Hann starfar sem myndlistamaður og leggur mesta áherslu á notkun ljósmynda, myndbanda og innsetninga. Í verkum sínum kemur hann inn á umhverfismál, sögulega atburði og uppruna fjölbreyttra menningarafkima heimsins. Hann notast við fræðilegar rannsóknir, safnar heimildum um grunnþemu náttúrunnar, umhverfis og orkumál, allt frá eyðingu frumskóga í Indónesíu til kolanámuvinnslu á Norðurheimskautinu.
Verkið sem hann vinnur að núna heitir Intervention. Þar er sjónum beint að málefnum tengdum náttúrunni eins og nálægð orkuframleiðslu og áhrif manna á náttúruna. Han Sungpil hefur ferðast um bæði Norður- og Suðurheimskautið í leit að minjum um kolanámur og hvalveiðistöðvar. Ljósmyndirnar af því sýna á listrænan og gagnrýnin hátt frá stórkostlegri náttúru og hvernig hún er þjóðnýtt af mönnunum. Í dvöl sinni í listavinnustofu ArtsIceland hefur Sungpil haldið áfram vinnu sinni við þetta verkefni og hefur hann myndað og tekið myndbönd af minjum hvalveiðistöðva á Vestfjörðum sem eru fulltrúar sögunnar og geyma minni atvinnuhvalveiða hér við land.
Listamannaspjallið verður í Bryggjusal og hefst klukkan 17. Það fer fram á ensku og eru allir velkomnir.
bryndis@bb.is