Innbrot í Grunnskólann

Grunnskólinn á Ísafirði.

Aðfaranótt 4. júlí barst lögreglunni á Ísafirði tilkynning um grunsamlegar mannaferðir í húsnæði Grunnskólans á Ísafirði. Þegar lögreglan kom á vettvang kom í ljós að búið var að brjótast þar inn og hafði lögreglan upp á öðrum þeirra sem það gerði. Hinn kom í leitirnar skömmu síðar. Játning liggur fyrir hjá þessum mönnum að hafa brotist inn í byggingu skólans og valdið einhverju tjóni þar. Mennirnir voru ölvaðir.

Í dagbók lögreglu kemur fram að alls bárust 9 tilkynningar í vikunni um að ekið hafi verið á búfé á vegum í umdæminu. Flestar tilkynningarnar vörðuðu atvik í Ísafjarðardjúpi.

Tilkynnt var um umferðaróhapp í göngunum milli Bolungarvíkur og Hnífsdals um miðjan dag þann 3 . júlí. Krani vörubifreiðar, sem ekið var inn í göngin frá Bolungarvík, rakst upp í hæðarslá. Hæðarsláin féll niður og á fólksbifreið sem þarna var á ferð einnig. Engin slys urðu á vegfarendum en töluvert tjón á fólksbifreiðinni og umferðarmannvirkjum í göngunum.

Kl.15:00 föstudaginn 7. júlí barst tilkynning í gegnum Neyðarlínu um umferðarslys í Vestfjarðagöngum. Lögregla, slökkvilið og sjúkraflutningamenn, auk læknis, fóru á vettvang, enda var tilkynnt um harðan árekstur og að fimm væru slasaðir. Ökumenn og farþegar voru fluttir á sjúkrahúsið á Ísafirði. Enginn þó með lífshættulega áverka.

63 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu. Flestir voru þeir stöðvaðir á Djúpvegi og í Strandasýslu.

Einn ökumaður var kærður í vikunni, grunaður um ölvun við akstur. Höfð voru afskipti af þeim aðila í Bolungarvík að morgni 5. júlí.

DEILA