Samgönguráðherra skoðar hvort hefja eigi gjaldtöku á öllum samgönguleiðum út frá höfuðborgasvæðinu vegna brýnna vegaframkvæmda sem kosti hundrað milljarða. Með gjaldtöku megi fara í tugmilljarða framkvæmdir í vegakerfinu árlega á næstu árum. Náist samstaða á þingi verði hægt að hefja framkvæmdir strax á næsta ári.
Jón Gunnarsson samgönguráðherra sagði í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að vegkaflarnir sem eru til skoðunar séu þeir þar sem slysatíðni er langhæst. Þetta er kaflinn frá Keflavíkurflugvelli í gegnum Hafnarfjörð og frá Reykjavík til Selfoss ásamt nýrri Ölfusárbrú. Einnig fullnaðarfrágangur upp í Borgarnes, og síðar yrði farið í tvöföldun Hvalfjarðarganga og í fyrsta áfanga Sundabrautar. Það lætur nærri lagi að kostnaður við þessar framkvæmdir geti legið á bilinu 100 milljarðar ef allt er talið.
Í ríkisfjármálaáætlun geri ráð fyrir 10 milljörðum til nýframkvæmda árlega. Kostnaðurinn við framkvæmdirnar á vegunum út frá höfuðborginni sé meiri en hægt verði að fara í þær fyrir fjármagn úr ríkissjóði og því verði að leita leiða til að fá nýtt fjármagn. Jón sagði að gjaldtaka verði til þess að hægt verði að nota fjármagn úr ríkissjóði til að kosta mikilvægar framkvæmdir á landsbyggðinni, svo sem brýnar samgöngubætur á sunnanverðum Vestfjörðum.