Fiskafli íslenskra skipa í júní var rúmlega 53 þúsund tonn sem er 27% meira en heildaraflinn í júní 2016. Aukningin skýrist að öllu leyti af kolmunaafla, en í júní veiddust rúm 15,5 þúsund tonn af kolmunna en tæp 2 þúsund tonn í júnímánuði í fyrra. Botnfiskafli dróst saman um 8% milli ára en tæp 33 þúsund tonn veiddust af botnfisktegundum en tæp 36 þúsund tonn í júní 2016. Rúm 18 þúsund tonn veiddust af þorski sem er 3% meira en í júní 2016. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.
Heildarafli á 12 mánaða tímabili frá júlí 2016 til júní 2017 var rúmlega 1,1 milljón tonn sem er um 5% meira en yfir 12 mánaða tímabili ári fyrr.
Í veftöflum má sjá að miðað við fimm ára meðaltal afla júnímánaðar 2012-2016 er aflinn í júní 2017 um 0,7% yfir meðaltali. Þar má einnig reikna að afli aflamarksbáta var 1,2% meiri í júní en að meðaltali í sama mánuði síðustu fimm ár og afli strandveiðibáta var 5% minni.
Verðmæti afla í júní metið á föstu verðlagi var 7,2% minna en í júní 2016.