Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt framkvæmdastjóra og stjórnarmann í einkahlutafélagi í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 9.750.000 kr. sektar fyrir stórfelld skattalagabrot. Fimm mánaða fangelsi kemur í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
Í ákæru var manninum gefið að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti á árunum 2009 og 2010, samtals um 4,2 milljónir kr. Þá hafi hann ekki staðið skil á skattframtölum einkahlutafélagsins árin 2009-11 og með því vanframtaldi hann rekstartekjur félagsins um 76 milljónir kr. og kom sér undan greiðslu tekjuskatts.
Þá var hann einnig dæmdur fyrir að hafa átið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og vanrækt að varðveita fylgiskjöl og önnur bókhaldsgögn vegna einkahlutafélagsins, rekstrarárin 2008, 2009 og 2010.