Byggðastefna í molum, en það er von

Stefán Skafti Steinólfsson

Góðir lesendur.

Það dylst engum sem hefur kynnt sér og prófað á eigin skinni,að byggðastefna á Íslandi er í molum. Það stendur ekki steinn yfir steini og handahófskennd vinnubrögð leiða til stórkostlegra breytinga á byggð og skerðingar á mannlífi út um landið. Fjölskyldur leita í ríkari mæli á mölina enda ekki skrítið miðað við þá mismunun sem viðgengst í þessu ríkasta landi heims.  Hvað veldur og hvað er til ráða ?  Í stuttu máli er staðan þannig að íbúar á köldum svæðum greiða himinhátt verð til að kynda hús sín,margir hafa ekki aðgang að viðunandi ljósleiðaratengingum, njóta ekki vegasambands eða snjómoksturs svo mannsæmandi sé.  Einnig stendur einfasa rafmagn mörgum fyrir þrifum. Póstdreifing til sveita og þorpa þverrandi. Kvótakerfi í sjávarútvegi er meingallað og skilur eftir byggðir í sárum, alger andhverfa þess sem til að ætlast að það myndi tryggja byggð í landinu. Smábátaflotinn og krókaveiðar á útrýmingarstigi. Það verður að gera róttækar breytingar á fiskveiðistjórninni ef ekki á að fara illa. Svo ekki sé minnst á brottkastið gegnum árin. Smáplástrar Byggðastofnunar, byggðakvóti og verkefnið brothættar byggðir eru góðra gjalda verðar, en duga engan vegin,því ekki er ráðist gegn rótum vandans. Það verður að jafna kjörin í landinu og leyfa fólki að bjarga sér. Þetta tel ég vænlegt til árangurs:

Ívilnanir í gegnum skattkerfið.

Breytt fiskveiðistjórnun. Allur afli á markað. Frjálsar krókaveiðar.

Stórátak í vegagerð. Metnaðarfull áætlun fyrir jarðgöng.

Ljósleiðari og þriggjafasa rafmagn um allt land.

Jöfnun flutningskostnaðar.

Ívilnunum má beita gegnum skattkerfið samkvæmt norrænni fyrirmynd. Norðmenn hafa um árabil styrkt byggðir gegnum skattkerfið með góðum árangri. Ekki síst hafa þeir hugað vel að frjálsum fiskveiðum á harðbýlum svæðum. Hví lítum við ekki til reynslu frænda okkar og gyrðum okkur í brók í byggðamálum. Ég get sem skattgreiðandi vel unnt góðu fólki í Árneshreppi á Ströndum (svo dæmi sé tekið) þess að greiða lægri tekjuskatt,enda njóta þeir ekki þeirra lífsgæða sem við hér við Faxaflóann teljum sjálfsögð mannréttindi.  Það leggur ekki þjóðfélagið á hliðina,en verður hvati til þess að íbúar  landsins sitji við sama borð. Það verður einnig hvati til þess að stjórnvöld setji fram áætlun hvernig skuli jafn kjörin svo allir greiði sama tekjuskatt. Hægt er að gera sáttmála um hvað lífsgæði liggja að baki ákvörðun um skattgreiðslur. Það má gera með aðkomu stéttarfélaga,sveitarfélaga og ráðuneyta. Svona gæti sáttmálinn litið út í grófum dráttum.

Lífsgæði Já/Nei Lækkun tekjuskatts
Heitt vatn til kyndingar/neyslu   10%
Ljósleiðaratenging 100 Gb   5%
Tvíbreiður vegur/slitlag/snjómokstur daglega   5%
Þriggjafasa rafmagn.   5%
Póstþjónusta dagleg/pósthús innan 50 km radíus   2%
Annað. (t.d. samgöngur frá eyjum,ferjur,flug o.f.l.)   (3%)

 

Skoði nú hver fyrir sig. Þetta má telja til þess sem við höfum byggt upp sem þjóðfélag og ríflega helmingur  þjóðarinnar telur vera sjálfsögð mannréttindi núna árið 2017.  Það er fádæma aumingjaskapur að hafa ekki sama verð á orku til húshitunar um allt land. Þessi gæði voru byggð upp fyrir daga kvótakerfis og skortveiðistefnu. Það ætti því að vera forgangsatriði að breyta fiskveiðistjórnuninni og afla tekna.

Margar þessar byggðir sem höfðu lagt ógrynni fjár til samfélagsins eru nú rjúkandi rústir því innviðir voru ekki byggðir upp. Uppbyggingu var hætt  og heilu byggðirnar skildar eftir í myrkrinu og kuldanum. Ljósið í myrkrinu er metnaðarfull áætlun Rarik að leggja allt rafmagn í jörðu og þriggja fasa. Það er vel, en þarf að gerast miklu hraðar með aðkomu stjórnvalda. Vel er hægt að leggja ljósleiðara með rafstrengjum og spara stórfé líkt og gert var í Öræfasveit.

Jöfnun flutningskostnaðar er einföld framkvæmd. Sé ekki tollhöfn innan 100 km er hægt að beita ívilnunum gegnum skattkerfið. Það er tímabært að innlend fyrirtæki í eigu íslendinga njóti ívilnana líkt og stór erlend fyrirtæki í stóriðju. Næg er kvöðin af vaxtaokri fyrirtækja að þurfa ekki að glíma við himinháann flutningskostnað.

Það er nauðsynlegt að horfa í baksýnisspegilinn og læra af mistökunum,en það þarf að spyrna við fótum og bjarga byggðunum. Horfa fram á veginn. Bjóða út á EES svæðinu,þessi 20-25  jarðgöng sem á eftir að bora hér innanlands. Gera áætlun um að eyða einbreiðum brúm. Þarna verða þingmenn að setja sig í spor kjósenda sinna,líka þeir sem lifa við öll þessi kjör í Garðabænum (svo dæmi sé tekið) .  Ef gamli söngurinn kemur um kostnað við verkefnin má benda á stóra tekjupósta í vannýttum fiskistofnum kringum landið sem eru varðir af skortveiði kvótakerfisins. Vilji er allt sem þarf til að breyta mannana verkum.

Stefán Skafti Steinólfsson. Akranesi  Nemi og áhugamaður um byggðamál.

DEILA