Velta í virðisaukaskattsskyldri starfsemi, fyrir utan ferðaskrifstofur og farþegaflutninga á vegum, var 629 milljarðar króna í mars og apríl sem er 0,8% hækkun miðað við sama tímabil árið 2016. Veltan jókst um 3,3% á tímabilinu maí 2016 til apríl 2017 miðað við síðustu tólf mánuði þar áður. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.
Starfsemi tengd farþegaflutningum og ferðaskrifstofum var ekki virðisaukaskattsskyld fyrr en í ársbyrjun 2016 og er nauðsynlegt að taka tillit til þess þegar velta frá og með 2016 er borin saman við fyrri ár.
Velta í allri virðisaukaskattsskyldri starfsemi nam 646 milljörðum króna í mars og apríl 2017, en það er hækkun um 1,3% frá sama tímabili 2016.
Velta jókst í flestum einkennandi greinum ferðaþjónustu, t.d. jókst velta í flokkinum „rekstur gististaða og veitingarekstur“ um 25,9% á tímabilinu maí 2016 til apríl 2017 miðað við síðustu tólf mánuði þar áður. Á sama tíma jókst velta í bílaleigu um 25,2%. Velta í bílaleigu er orðin svipuð veltu í landbúnaði.
Fleiri atvinnugreinar virðisaukaskattsskyldar
Í ársbyrjun 2016 tóku gildi breytingar á lögum um virðisaukaskatt, 50/1988, sem gerðu nokkrar atvinnugreinar virðisaukaskattsskyldar sem áður voru undanþegnar. Þar ber helst að nefna farþegaflutninga aðra en áætlunarflutninga (undir bálki H) og þjónustu ferðaskrifstofa (undir bálki N). Þetta er að hluta til skýringin á mikilli aukningu á virðisaukaskattsskyldri veltu í þessum greinum, en einnig hafa umsvif þessara atvinnugreina aukist mikið undanfarin ár.
Þar sem þjónusta ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda er tiltölulega nýorðin virðisaukaskattsskyld er ekki enn hægt að bera saman tölur á ársgrundvelli, en velta í þeirri atvinnugrein var 23,3% hærri í mars og apríl 2017 en sömu mánuði árið áður.
Minni velta í sjávarútvegi
Ef miðað er við heilt ár og nýjustu tölur, þá var velta í sjávarútvegi 15,7% lægri á tímabilinu maí 2016 til apríl 2017 en síðustu tólf mánuði þar á undan. Á sama tíma lækkaði velta í heildverslun með fisk um 14,4%. Lækkunina má skýra með að gengi íslensku krónunnar hefur hækkað miðað við gjaldmiðla í helstu útflutningslöndum okkar og nýafstöðnu verkfalli sjómanna.