Íslendingar ættu að nota sérstakar sjúkraþyrlur með sérmenntaðri áhöfn til að flytja bráðveika og slasaða sjúklinga á Landspítalann. Þetta er niðurstaða opinbers sérfræðingahóps sem vill gera tilraun með að nota slíka þyrlu á Suður- og Vesturlandi. Skýrsla hópsins var gerð opinber í morgun. Hópurinn leggur til að sérstakri sjúkraþyrlu verði komið á fót á Suður- og Vesturlandi til reynslu í eitt til tvö ár áður en framtíðarfyrirkomulag sjúkraflutninga verður ákveðið. Áætlað er að verkefni fyrir þyrlu á Suður- og Vesturlandi séu í kringum 300 til 600 á ári. Á Norðurlöndunum nemur kostnaður við rekstur sjúkraþyrlu um 650 milljónum króna á ári og er ætlað að kostnaðurinn verði svipaður hér á landi.
Þyrlurnar yrðu mannaðar lækni og bráðatækni eða hjúkrunarfræðingi, auk flugmanns. Áhöfnin væri alltaf á vakt, en ekki á bakvakt eins og hjá Landhelgisgæslunni, og því myndi viðbragðstími styttast.
Sjúkraþyrlurnar eru ódýrari bæði í innkaupum og rekstri en björgunarþyrlur en björgunarþyrlur geta aftur á móti flogið við fleiri skilyrði. Smærri þyrlur, sérstaklega innréttaðar, mannaðar og reknar til sjúkraflutninga gætu sinnt stærstum hluta þeirra sjúkraflutninga sem Landhelgisgæslan sinnir í dag.
Þá dugir oftast minni áhöfn til þess að sinna þeim verkefnum sem sjúkraþyrlum er ætlað. Ódýrari þyrlur og minni áhafnir þýða að hægt er að halda rekstrarkostnaði einingarinnar niðri.